fimmtudagur, 30. september 2010

Einn tveir þrír... -Sæl ég heiti Gísli...

... fimm sex sjö. Einn tveir þrír - fimm sex sjö.
Þetta ávarp mannsins sem telur taktfast um leið og hann tekur í spaðann á Túttu er til komið vegna þess að þau standa á móti hvort öðru á nýlögðu parketgólfi í einum sérhæfðum dansskóla hér í bæ. Þau eru sumsé pöruð saman í dansi örstutta stund samkvæmt fyrirmælum kennarans sem stjórnar með glæsibrag hópi fólks á þessu tiltekna parketgólfi. Allt þetta fólk er nefnilega samankomið hér til að læra Salsa.
-Einn tveir þrír... sæll! segir Túttan á móti og kynnir sig fyrir Gísla en passar jafnframt upp á að telja taktfast sjálf, til að búkurinn og síðast en ekki síst fæturnir missi nú ekki ryþman sem hún er að reyna að halda við þessar krefjandi en jafnframt seiðandi aðstæður. Einnig fylgist hún laumulega með sjálfri sér í stórum spegli á veggnum svona til að tékka á hvort lúkkið, flörtið og fasið sé ekki örugglega í lagi. Slíkt verður sérdeilis að vera í toppstandi í kvöld - af gefnu tilefni. Nú róterar kennarinn hópnum upp á nýtt svo allir prófi nú nýjan dansfélaga. Og Tútta kveður Gísla sem snarar sér að næstu dans-dömu með tilheyrandi einn tveir þrír ávarpi á meðan Tútta skimar einbeitt yfir dansgólfið. Og hún veitir athygli einni vel straujaðri skyrtu á einum mjög sætum manni út í sal. Fær í leiðinni pínu skjálfta í hnéskeljarnar.
Tútta er sem sagt komin á Salsa-námskeið næstu fimm vikur. Eftir mjaðmasveiflur sumarsins og nokkra prufutíma í listgreininni ákvað hún að skella sér á eitt slíkt námskeið. Og ekki nóg með það, heldur mætir hún með dansfélaga með sér - af albestu sort.
Túttu finnst hann sætur og skyrtan hans er sérlega smart - og vel straujuð. Túttan er þess vegna bara drjúg með sig og borubrött í þessum fyrsta Salsatíma því bæði hafa þau tjúttað aðeins saman áður. Þau eru nokkuð klár á mjaðmasveiflum hvors annars og Tútta telur sig því tiltölulega örugga í dansinum við hann. Hún lifir sig inn í sveifluna og er ekki að hafa miklar áhyggjur af sporatalningunni í þetta sinn. En hugsanlega er hún pínulítið að ofmeta Salsa-kunnáttu sína og tilheyrandi hæfni , því þegar dansfélaginn, þessi sæti í straujuðu skyrtunni, tekur upp á því að klípa nett í rassinn á henni í einni sveiflunni þá fipast henni all hrapalega. Hún missir taktinn, fylgir ekki tónlistinni, horfir flöktandi og ráðvilltu augnaráði til beggja hliða, horfir með undrun niður á lappirnar sem ekki vilja hlýða, lítur svo að lokum vandræðaleg á dansfélagann sem skælbrosir og skemmtir sér klárlega vel yfir uppátækinu! Hann "botnaði" mómentið sumsé algjörlega með stæl!
Eh!... uh.! Þrátt fyrir að Tútta missi niður glæsilegt Salsa-appearansið eitt augnablik þá getur hún ekki annað en skælbrosað á móti.
Því henni finnst þetta eitthvað svo voðalega sætt og skemmtilegt allt saman!

föstudagur, 10. september 2010

Barn? Fullorðin?... eða eitthvað þar á milli.

Hún er nývöknuð. Ellefu ára afmælisdagurinn runnin upp og barnið sem að öllu jöfnu er ómögulegt að vekja á morgnanna nema með alls konar tilþrifum, þolinmæði og þar til gerðum plönum er nú glaðvakandi fyrir klukkan sjö. Vissi að biði pakki frá Túttumömmu og dásemdar morgunverður. Og hún er bæði glöð og spennt. En staða Bimsubarnsins er nokkuð óljós um þessar mundir. Hún er nefnilega ekki viss hvort hún barn, á leiðinni að fullorðnast eða eitthvað þar á milli.
Hún velur sér fötin í skólann í dag af mikilli kostgæfni. Skiptir þrisvar áður en klukkan verður átta. Pils eða gallabuxur? Fín í tilefni dagsins? Kasjúal eða kúl? Hárspöng eða tagl? Slétt kannski? Ætlar að endurskoða stöðuna að loknum skóla og áður en bekkjarsystur mæta í partý síðdegis. Kyssir Túttumömmu bless og tekur loforð af henni að vera nú ekki mikið áberandi í fyrrgreindu partýi. Túttumamma á sumsé hvorki að reyna að vera fyndin fyrir afmælisgesti né að láta gestrisni stíga sér til höfuðs.
Gott mál og afgreitt á staðnum.



Klukkan fjögur púntlich mætir á svæðið búnki af hnátum sem eru einnig ellefu ára - og Túttumömmu er ljóst að þær glíma við sama konsept og Bimsubarnið. Eru ekki alveg vissar hvort þær séu börn, fullorðnar eða eitthvað þar á milli. Á milli þess sem þær leika sér, dansa og flissa, fara í spurningaleiki og hlutverkaleiki vindur sér ein hnátan að Túttumömmu:

-Mikið óskaplega eru þetta góðar pizzur hjá þér! segir hún kotroskin. Túttumamma þakkar komplimentið og er ekki alveg viss um hvurnin hún eigi að taka því, hafandi verslað guðdóminn í Bónus fyrr um daginn. Stuttu síðar kemur önnur hnáta inn í eldhús þar sem Túttumamma heldur sig til hlés. -Óskaplega er þetta fallegt heimili sem þið eigið! Ég er einmitt svo hrifin af svona nútímahönnun! Allt svo stílhreint og fallegt! Nú er Túttumamma orðlaus. Hún kíkir ofurvarlega inn í stofu. Á þennan búnka af ellefu ára hnátum sem einmitt núna eru í "Frosin!" leik. Og hún er forvitin um hversu líf og þroski manneskjunnar er fjölbreyttur. Að vera barn og fullorðin í sömu andrá hlýtur að vera afar krefjandi djobb. En örugglega skemmtilegt og ögrandi.

Ánægjulegum afmælisdegi Bimsubarnsins lýkur með bíóferð. Aðal-mennirnir í lífinu eru mættir á svæðið. Bræðurnir sem hún dýrkar og dáir kippa ellefu ára Bimsuskvísunni (sem enn og aftur hefur haft fataskipti) upp í bíl og bruna af stað. Búin að kyssa Túttumömmu bless og þakka henni fyrir ánægjulegan dag og ekki síst fyrir ósýnileikann í boðinu.

Túttumamma situr heima, dösuð og lygnir aftur augunum. Huxar.

Huxar um hversu yndislegt það hljóti að vera... að vera ellefu ára. Vera barn stundum. Og stundum ekki. Fá heillaóskir, gesti og gjafir. Fá líka símtal úr Suðurbænum. Símtal sem Túttumamma lagði inn pöntun fyrir... fyrir um ári síðan.

Jámm... Ellefu ára og dásamlega hamingjusöm!

miðvikudagur, 8. september 2010

Að finna kjarnan í sjálfum sér...


... er eiginleiki sem oft er vanmetinn og vandfundinn. Eiginleiki sem Túttu finnst óskaplega gott að upplifa þegar hún gefur sér tíma frá dagsins amstri. Snýr ímyndaðri hnattstöðu jarðar, veruleika, og síðast en ekki síst tilfinningalífi að sjálfri sér. Þetta er svona móment þegar maður nær að kúpla sig út úr efnisheiminum og inn í heim sjálfsins, sinnar eigin verundar og tilfinninga. Svipað og þegar Túttan fær sér sundsprett á morgnanna. Finnur vatnið umlykja kroppinn, finnur alla vöðva líkamans hreyfast í takt við vatnið og vatnið hreyfast í takt við líkamann. Og það er góð tilfinning. Slík upplifun veitir möguleika á naflaskoðun, sjálfsgagnrýni og hugarró. Allt saman element sem eru hluti af sjálfsmynd, birtingarmynd og veruleikaheim. Dásamleg tilfinning. Að finna sig sjálfan í sjálfum sér. Að finna vissa gersemi. Að vera sín eigin gersemi.
Þetta er líklega í ætt við jóga. Sem Tútta hefur stundað í mörg ár, bæði markvisst og ómeðvitað. Nái maður tengingu - er hún ávallt til staðar.
Eitthvað hefur gerst líka í sumar sem leið. Eitthvað frábært sem Túttan getur ekki útskýrt. Byrjaði einhvern tíma í vor og hún skynjaði í raun ekki fyrr en fyrir stuttu síðan. Eitthvað ótrúlega gott. Einhver ný sýn tekin við. Einhver kraftur kominn - og eitthvað farg er farið. Og það er mikill léttir. Góð tilfinning. Góð samvera með sjálfinu. Og Tútta hefur huxað sér að vera áfram í þessari ljúfu samveru. Þrátt fyrir áföll, vonbrigði og sorgir lífsins - sem eru mannskepnunni óumflýjanlegar og eflaust alltaf til staðar, er dásamlegt að finna kjarnann í sjálfum sér.
Því þar er maður einhvern veginn alltaf sannur.
(Já einmitt! Túttan er óvenju djúp núna!)

laugardagur, 4. september 2010

Vá! Rosalega eru þið líkar!!!...

... segir alls ókunnugur afgreiðslumaður í ónafngreindri verslun við Túttumömmu og Tjásubarnið einn síðdegiseftirmiðdag í liðinni viku.
Það er svosum ekkert óalgengt að fólk sjái svip með líffræðilega skyldum einstaklingum en þetta komment afgreiðlsumannsins hefur í för með sér skringilega tilfinningu hjá Túttu. Á meðan hún skælbrosir og segir eins og bjáni: Eh! Já! Finnst þér það?!!! fer um hana sælutilfinning sem er bæði ljúf en einnig svolítið framandi. Framandi vegna þess að Túttu finnast líffræðileg tengsl, genatísk arfleið frá einum einstaklingi til annars, frá foreldri til afkvæmis alveg óskaplega merkilegt fyrirbæri. Sælutilfinning vegna þess að hún fær staðfestingu á líffræðilegri arfleið sinni sem henni finnst nánast guðdómleg staðreynd. Er þess vegna makalaust impóneruð yfir að einhver ókunnugur aðili út í bæ sér, að líkur sækir líkan heim. En hvers vegna þessi skrítna tilfinning?
Hugsanlega vegna þess að Túttan er sjálf hálfgert eyland í erfðafræðilegum skilningi. Ættleidd á þartilgerðum pappírum og foreldralaus manneskja í Íslendingabók. Tengist hvorki manni né mús. Upplifir sig sem einhvers konar pottablóm með rætur í tilbúnum jarðvegi, fjarri þeim upprunalega og náttúrulega. Eða, félagslegt "statement" sem á að uppfylla ákveðin skilyrði um hefðbundnar væntingar samfélagsins? Barnleysi hjóna og hefðbundið fjölskyldumynstur?
Eina líffræðilega tengingin sem Tútta á, og brosir breitt yfir, eru afkvæmin þrjú sem hún hefur fætt í þennan heim. Þrjú börn, tvær fæðingar. Og hún vanmetur þá tengingu svo sannarlega ekki. Dásamlegri gjöf er vart hægt að hugsa sér. Strákarnir hávaxnir og glæsilegir eins og föðurættin, tjásubarnið lík mömmu sinni á allan mögulegan og ómögulegan hátt. Stórmerkilegt fyrirbæri að mati Túttunnar sem iðulega tekur mannfræðipólinn í þankagang sem þennan.
Nokkuð sérkennilegur þankagangur um líffræðileg tengsl Túttunnar. Allt í kring, fyrir utan, er ókunnugt, lokað, dularfullt, ósagt - sem leiðir hugann að annars konar skrítinni tilfinningu. Tilfinningu sem gerði vart við sig í sömu viku og Túttan skælbrosti til afgreiðslumannsins með aulasvip, gleði og furðu!
Tútta situr í eldhúsinu sínu og heyrir að inn um bréfalúguna berst póstur. Og þar sem hún stendur í forstofunni kemur þessi skrítna tilfinning aftur. Allt í einu heldur Túttan á blaði. Svona prógrammi sem úthlutað er kirkjugestum við jarðarfarir. Með mynd af hinum látna, nafni, dánardægri og útfarar-ritúali. Og hún sér að þetta er náskyldur líffræðilegur ættingi, föðurbróðir, sem nýlega er látinn. Búið að jarða. Þau hittust fyrir margt löngu - hann fylgdist með henni úr fjarlægð... af því hún var dóttir bróður hans. Og það var gott.
Einhver sem veit af þessum líffræðilega skyldleika við Túttuna hefur lætt þessu prógrammi inn um bréfalúguna. Gerir ekki vart við sig. Keyrir í burtu. Og Túttan stendur í forstofunni, pínulítið hissa, ringluð og döpur. Horfir á myndina af föðurbróðurnum sem hún aldrei fékk að kynnast. Hefði viljað vera við útförina þrátt fyrir að þekkja hann nánast ekki neitt. Hefði viljað vita hver það var sem læddist að bréfalúgunni og fór svo í burtu án þess að gera vart við sig. Túttu langaði að sjá, snerta, spyrja. Fá að vera með. Það er ekki hægt.
En það er hægt að gleðjast óendanlega mikið þegar ókunnugur einstaklingur segir við Túttu og Tjásu í ísbúð: Vá! Rosalega eru þið líkar!!!

þriðjudagur, 24. ágúst 2010

Stundin er runnin upp...


... þessi stund sem Tútta er búin að reyna að höndla síðustu daga og undirbúa bæði andlega og líkamlega.
Undirbúa andlega með ýmiskonar íhugun, gefandi jógahugleiðingum og huglægri atferlismeðferð sem felst meðal annars í að snúa neikvæðum hugsunum í jákvæðar.
Líkamlegi undirbúningurinn hefur aftur á móti falist í öndunaræfingum, í gegnum munn annars vegar og nef hins vegar, ásamt því að hafa stjórn á vissum hálsvöðvum og öðrum líffærum sem liggja annað hvort fyrir ofan eða neðan vélinda í skjálfandi kroppi Túttu.
En hvers vegna svona óskaplegur undirbúningur? Og hvers vegna er svona nauðsynlegt að hafa allt á hreinu fyrir tiltekinn dag í vikunni? Jú... Tútta á tíma hjá tannlækni. Þriðjudaginn 24. ágúst 2010 kl. 13 púnktlich eftir hádegi er hún sest í stólinn. Þennan stól sem hægt er að fjarstýra, upp og niður, út og suður, á þann hátt að varnarlaus manneskja upplifir sig algjörlega berskjaldaða. Með sérvíettubleðil um hálsinn og snyrtilega klínku sem horfir með móðurlegri meðaumkun á fyrirbærið í stólnum tekur nú Tútta þeim örlögum og öndunarörðuleikum sem koma skulu næsta hálftímann.
Tútta horfir upp í loft. Spáir í hvort ekki hefði mátt mála loftið betur á þessari tannlæknastofu? - svona bara rétt til að dreifa huganum og nýta sér fyrrgreinda atferlismeðferð. Pírir augun því þessi skæri lampi sem er rétt fyrir ofan ennið á henni virkar eins og hundrað volta ljósapera, aflitar meira að segja hárið í þessu hvíta og sótthreinsaða umhverfi. Líklega er best að hafa augun lokuð.
Og nú er hann kominn. Þessi maður sem er ekkert nema stór rannsakandi augun. Með hvítt léreft strekkt yfir vitin þannig að geta verður í eyðurnar hvurnin hann lítur í raun út. En það er ekki hann sem Túttan hræðist. Heldur ekki deyfingin, borinn, hljóðin, kroppið með oddhvassri tönginni eða lyktin. Það er hugsunin um að geta ekki andað. Að ná ekki andanum í heilan hálftíma er hugsun sem skelfir Túttu. Hún hefur nefnilega aldrei, frá blautu barnsbeini, með reglulegum heimsóknum fram á fullorðinsár til svona manns getað ákveðið hvort hún eigi að anda í gegnum nefið eða munninn á meðan hann fer fimlegum höndum og tækjum um trantinn á Túttu. Að iðka samhæfða öndun með allskonar tól og tæki í munni - og sítalandi tannlækni tvo sentimetra frá vitunum er nefnilega ekki auðveld né eftirsóknarverð lífsreynsla. Slík lífsreynsla orsakar þess vegna ákveðið líkamlegt rugl á annars reglubundnu systemi sem fúnkerar ágætlega við normal aðstæður. Ruglið felst í of mikilli munnvatnsframleiðslu fyrir það fyrsta. Og ótímabærum kyngingum, kítli í hálsi, hósti og purri alla leið niður í þind. Í efri hluta líffærakerfisins verður einnig ákveðin ósamhæfing. Nefið verður einhvern vegin stíflað en samt mjög móttækilegt fyrir vökva sem rennur ljúflega bæði til hliðar og rangsælis. Meira að segja tárapokarnir gerast ofvirkir og sjá til þess að farðinn sem settur var upp fyrr um morgunin þurrkast nú í hvítu sérvíettuna.
Tútta upplifir árvissa skelfingu. Munnvatn sem rennur upp í móti, nefrennsli sem rennur...tja... Tútta veit hreinlega ekki hvert, ógleði, uppþembu og stöðugar kyngingar þannig að hálsinn hamast eins og öflug togaravél í íslenskum ólgusjó.
Loksins kemst Tútta heim. Deyfð og dofin, skökk og skæld. Andlitið frekar ó-symmetrískt. Fær sér kaffi. Hittir ekki á munninn. Eða, munnurinn hittir ekki á kaffið. Slefar. Slefar meira. Tungan sem er eins og ofvaxið líffæri, vinstri kjálkinn og hluti af eyranu tilheyra einhverju öðru sólkerfi næsta klukkutímann. Slefar meira - og forðast að tala... ðvi enjin munði þkyljjja hvúaað hún ðegðgi....
Ðakkar ðínum ðæla fyðið að ár eð í næðstu heimðókn til tannþa.

laugardagur, 14. ágúst 2010

"Að dansa" er ekki það sama og "að dansa"...


... því hefur Túttan kynnst á þessu sólríka sumri sem nú er að líða.
Túttu finnst nefnilega gaman að dansa og hefur stöku sinnum farið út með vinkonum sínum þegar sumarnóttin hefur verið sem björtust og mannlífið svo óskaplega glatt og brosandi. Og stundum hefur henni verið boðið upp í dans af herramönnum. Þegar Tútta rifjar upp dansmóment sumarsins er henni hugsað til misjafnrar tækni og nálgunar sem dansherrar nota þegar þeir spotta út sæta stelpu og bjóða upp í dans. Og jafnframt hugsar hún út frá kynjafræðilegum perspektívum hvers vegna sumt virkar og sumt ekki þegar karlmaður, annars vegar, og kvenmaður hins vegar eiga í hlut.
Dæmi 1: (Á tilteknum skemmtistað í hundrað og einum).
-Mábjóðaéríglas? ropar hann framan í Túttuna þar sem hún situr ásamt vinkonum.
- Nei takk, svarar Tútta og finnst vodka+kók lyktin af honum vond. -Ókei segir hann og skekur sér í sætinu... hann vill nú samt spjalla við dömuna. -Ég fer í ræktina sex sinnum í viku segir hann og hnykklar upphandleggsvöðvana. -Jæja, er það já? Gott fyrir þig, svarar Tútta. Hann er í skyrtu sem hneppt er niður á miðja bringu. Mjööög tanaður og líklega búinn að láta hvítta í sér tennurnar. Hann upplýsir Túttuna einnig hversu rooosalega vel honum vegni í lífinu, allt sé bara æææðislegt og frááábært og geeeðveikislega skemmtilegt!
-Já er það? Tútta hefur engan sérstakan áhuga á þessu ótrúlega frábæra lífi mannsins en lætur til leiðast og jánkar þegar hann ropar aftur: Koddadansa!! Og Túttan er komin út á dansgólf ásamt herranum. Fín tónlist og fullt af glöðu fólki. Skyndilega finnst Túttu hún vera í fyndinni bíómynd: Herrann hristir sig og skekur, sperrir tanaðan brjóstkassann og gónir stíft á kvenfólkið sem er að dansa í kringum hann. Tútta reynir að ná athygli mannsins því hún hélt að þau væru að dansa saman?! Það reynist erfitt. Hann bara er í trufluðum og taktföstum búkhreyfingum um allt dansgólf, augljóslega mjög meðvitaður um sjálfan sig. Túttan, sem er alls ekki feminísk þessa stundina og kærir sig ekki um að vera eitthvað sjálfstætt og óháð fyrirbæri þarna á miðju dansgólfinu lætur sig hverfa. Og dansherrann tekur ekki einu sinni eftir því, enda farinn að sprikla og hnykkla vöðvana fyrir framan allt aðra konu!
Dæmi 2: (Nokkrum vikum seinna og gerist á sama stað við svipaðar aðstæður).
-Má bjóða þér að dansa? er hvíslað í eyra Túttu og komið ofurlaust við öxlina þar sem hún situr með vinkonum. -Nei takk! svarar Tútta snögg, minnug dansreynslunnar fyrir nokkrum vikum. Hún lítur jafnframt á þennan hæverska mann sem snertir öxlina svona ofurblítt. -Eða... Jú takk! segir hún og skiptir um skoðun á sekúndubroti. Það er nefnilega eitthvað í einlægu fari hans sem er eitthvað svo ómótstæðilegt. Augnráðið, snertingin, hvíslið og ekki síst, látlaust fasið. Og þau dansa. Eru í raun bara tvö ein á dansgólfinu þrátt fyrir alla mannmergðina. Þannig upplifir Tútta alla vega þessa heillandi stund. En hvernig má það vera? Jú, hann brosir allan tímann og horfir stöðugt í augun á Túttu. Heldur þétt utan um hana, sveiflar henni hringi og kreistir á svo seiðandi og sjarmerandi hátt. Lætur hana finna að það sé engin einasta önnur kona á dansgólfinu nema akkúrat hún. Og Tútta fer pínu hjá sér og brosir á móti. Finnur hnéskeljarnar bráðna og örlítið kitl í maganum. Finnst hann óskaplega sætur og sjarmerandi. Horfir á móti, alveg dáleidd og dolfallin.Finnur líka að öll feminísk hugmyndafræði á ekki erindi inn á þetta dansgólf.
Og hann fylgir henni aftur að borðinu þar sem vinkonurnar sitja, sest hjá henni og heldur áfram að brosa og horfa... beint í augun á Túttu.
Já, "að dansa" er sko klárlega ekki það sama og "að dansa".

þriðjudagur, 27. júlí 2010

Gamall maður á eintali við guð...

... hann styður sig við krossinn á leiðinu hennar, sumpart vegna þess að hann er örlítið valtur á fótum og sumpart vegna þess að hann heldur enþá í minninguna um hana, konuna sem var honum allt og kvaddi fyrir ári síðan.
Hann fékk nefnilega símtal fyrr í dag. "Sæll pabbi minn, eigum við ekki að fá okkur bíltúr upp í kirkjugarð í góða veðrinu? Í dag er nefnilega ár síðan mamma dó".
"Ert þetta þú gullið mitt? Já... er ár í dag?" spyr hann vegna þess að minnið og tímskynið er farið að daprast.
Eftir að konan hans kvaddi hefur hann nefnilega mestmegnis setið einn. Aleinn. Á vistheimili fyrir aldraða. Gluggar stundum í blöð og bækur. Skoðar líka oft blaðaúrklippu, minningargreinina um hana. Hann fær að vísu gott atlæti á vistheimilinu en stundum er hann einmanna því fáir koma til hans. Dagarnir eru því oft lengi að líða.
En nú fer hann í bíltúr. Það liggur vel á honum því hann fer ekki oft út. Þau keyra saman, hann á jakkafötum með bindi eins og alltaf því hann er flottur og glæsilegur maður. Hefur í raun ávallt verið fremstur meðal jafningja, virtur og dáður fyrir störf sín og atgervi á sinni löngu lífsleið. En nú er hann gamall maður. Orðinn hokinn í baki og mæddur af löngu lífi. Stundum málhaltur og gleyminn. Þegar þannig er komið er gott að eiga eintal við guð.
Og þar sem hann styður sig við krossinn og jafnvel strýkur hann eins og koll á litlu barni þakkar hann almættinu fyrir allt sem lífið hefur gefið honum. Góða konu og góð börn. Hann spjallar um sitthvað sem liggur honum á hjarta við þennan vin sinn. Þó mestmegnis þau hugðarefni sem snúa að fjölskyldunni hans, hamingju, væntingum og vonum.
"Ég er svo þakklátur fyrir ykkur systkinin" segir hann að lokum við dótturina sem var svo elskuleg að gefa sér tíma til að keyra hann upp í kirkjugarð. "Við fengum ykkur eins og sólargeisla í líf okkar því við gátum ekki átt börn". "Já pabbi minn... ég veit" segir hún því hún getur í raun ekki sagt neitt annað. Hún horfir bara á þennan gamla mann sem styður sig við krossinn á leiðinu. Pabba sinn sem nú er orðinn eins og barnið hennar.
Og hann heldur áfram að strjúka krossinn, fer um hann mjúkum höndum og spjallar við vin sinn guð, sem hefur alltaf verið til staðar í lífi hans. Vin sem hann þráir að komast til sjálfur áður en langt um líður. Því hann er þreyttur.
Vinur sem er til staðar þrátt fyrir að aðrir vinir eru farnir eða uppteknir.

laugardagur, 17. júlí 2010

Ætlarðu að reyta arfann með hugaraflinu?


... spyr nágrannakonan og góð vinkona Túttu.

Líklega ástæða að spyrja, því Túttan hefur haft við vinkonuna stóryrt plön alla vikuna um upprætingu þessa arfa sem vex í blómabeðinu og nú skyldi ráðast á með kjafti og klóm þessa helgi. Góðviðrið og sólin skulu svo hjálpa til við að gera þetta leiðindaverk að guðdómlegri athöfn.
En hugsanlega er einhver ástæða fyrir að nágrannakonan spyr því hún horfir með undrunaraugum á Túttuna sem liggur á sólbekk, ótrúlega slök og gónir á illgresið pínulítið annars hugar, hálfpartinn utan við sig og greinilega ekki í stuði fyrir verkerkefnið.

Hvað veldur? Af hverju er Túttan svona fjarlæg og dreymin á svip? Er hún búin að lesa of mikið af krimmum og rómönsum í sumarfríinu? Svolítið svona í öðrum veruleikaheimi? Í fríi frá skólabókum og hefur farið hamförum í afrþeyingarhillum bókasafnsins?
Eða er hún að taka þessu saklausa sumri á einhvern hátt of alvarlega?

Af hverju er hún bara kjur á sólbekknum og blimskakkar augunum á arfann sem vex og dafnar í beðinu án nokkurs áreitis frá skóflu, klóru og viðeigandi útbúnaðar? Og virðist einhvern veginn vera alveg sama?

Líklega er það vegna þess að einhver skrítin tilfinning er innan í Túttu þessa dagana. Einhver tilfinning sem hvorki orsakast af daglegu amstri né huglægum vangaveltum um fortíð, nútíð eða framtíð. Þessi tilfinning er sumsé alveg ný. Byrjaði einhvern tíma í vikunni sem leið, alveg óvart og án nokkurs fyrirvara. Góð tilfinning. Svolítið sæt og unaðsleg. Pínulítið spennandi í ofanálag. Eiginlega þannig formuð að Túttan bara gónir á arfann, heldur áfram að liggja á sólbekknum og jánkar nágrannakonunni.
Jú, jú, hún líklega reytir arfa-ófétið með hugarfluginu. Er nebblea upptekin við annað.


miðvikudagur, 30. júní 2010

Túttan og Tjásan ákveða sveitaferð...


... með góðum hópi fólks sem ætlar sér að njóta íslensks sumars á meðan það gefst.
Túttan smitast af slíkum hughrifum og áhuga þrátt fyrir að vera óborganlegt borgarbarn. Veðurspáin er góð. Vegalengdin á þennan tiltekna áfangastað í sveitinni temmilega löng. Útilega í tjaldi með Tjásu litlu og góðum hóp vina... sú stutta óskaplega spennt yfir öllu saman. Gaman!
Ókí.... Tútta fer út í geymslu. Minnir að hún hafi átt á sínum tíma einhvers konar búnað fyrir svona náttúrulegt líferni... 3ja manna tjald, svefnpoka með einföldum saum, svo og blómótt box sem heldur köldu... og hún erfði eftir foreldra sína sirka 1984 þegar sunnudagsbíltúrar á Þingvöll fóru smám saman úr móð.
Túttan sumsé stendur út í geymslu og gónir... hmm? Hvað varð um þetta dótarí allt saman? Um leið rennur upp fyrir henni að þessi búnaður sem hún átti og veitti henni svo ómælda ánægju hér á árum áður hefur líklega endað sína lífdaga fyrir löngu í einhverri brjálæðis vor-tiltektinni sem iðulega leggst á Túttuna þegar Jónsmessa nálgast. Í ofanálag var þetta dót frekar gamaldags og myndi aldrei fá að njóta vafans á tjaldstæðum landsins nútildags.
Nú eru góð ráð dýr. Já, frekar, því ekki býður fjárhagurinn upp á fjárfestingu í fellihýsi, tjaldvagni, treiler eða hvað þetta nú heitir allt saman.Túttan ákveður því að "go native" að þessu sinni. Eins og sönnum mannfræðingi sæmir. Jú, með lítið tjald, prímus og pott. Nesti í poka. Svefnpoka að láni, ullarleista og húfu á hausinn... og njóta sveitar og sólar með Bimsubarninu sem að sjálfsögðu verður pökkuð inn í flís og faðmlag... tjald og tveggja stelpna tal.
Jámm... life is good!

þriðjudagur, 22. júní 2010

Það er eitthvað við bókasöfn...

... sem Túttu finnst svo ómótstæðilegt. Eitthvað sem virkar á huglæga kerfið á þann hátt að hún dregst að svoleiðis stofnunum ef þær eru í nágrenninu.
Tútta á leið niður í miðbæ þess höfuðstaðar sem hvað lengst píndi íslenska misyndismenn hér á öldum áður. Nú eru þeir ekki lengur píndir heldur sitja á torginu góða og dásama danskt veður, danskan öl og dansk smörrebröd naturligvis. Túttan kinkar kolli til landa sinna... ved jo godt hvordan det er at være ligeglad í Danmark.
Tútta er á leið niður í Fiolestræde. Þar sem De Kongelige Bibliotek er til húsa. Hún einhvern veginn límdist við þennan tiltekna stað þegar hún var stúdína hér forðum... og á einhvern óútskýranlegan hátt dregst hún að staðnum aftur... og aftur.
Þetta er svona bókasafn sem er með sérstakri lykt. Og fornu starfsfólki. Það er algjör þögn nema þegar einhver gengur eftir köldu steingólfinu. Konur og menn með gleraugu og rykfallnar axlir. Sólarljósið að utan gerir umhverfið, veggina og gólfið, röndótt og þokukennt. Þetta er líka svona bókasafn þar sem þarf að klifra upp í stiga. Og Tútta klifrar. Veit hvar hún á að leita. Fimmta röð frá hægri... við hliðina á sósíal-þeoríu-deildinni.
Og Tútta er allt í einu komin langt upp í hillu númer níu sem er sú þriðja frá lofti. Og þarna eru þær.... í löngum röðum. Dásamlegar! Virðast einhvern vegin vera sjálflýsandi í öllu þessu bókahafi. Skera sig úr á einhvern hátt. Svo áhugaverðar og spennandi. Mannfræðin í öllum sínum fjölbreytileika og á öllum tungumálum.
Ljómandi Túttuandlitið lítur dagsins ljós þegar liðið er á síðdegið. Sólin skín enn, landarnir orðnir góðglaðir á torginu og Túttan endurnærð eftir stefnumót við góða tíma forðum og hugðarefni sem henni er alltaf nálægt.

föstudagur, 18. júní 2010

Það hlýtur að vera eitthvað með aðdráttarafl jarðar...

... sem dregur Túttuna ávallt á einn ákveðinn púnkt á jörðinni á þessum árstíma.
Þessi púnktur er staðsettur í Danskalandinu, landinu þar sem Tútta á að hluta til uppruna sinn að sækja.
Eða kannski er þetta eitthvað genatískt? Þetta aðdráttarafl sem hún finnur fyrir þegar hún sogast að þessum tiltekna púnkti. Það gæti hugsast að í blóði Túttunnar sé svona ákveðin dönsk stemmning. Ekki ólíklegt... því henni finnst hún vera örlítið á skjön við íslenska tilveru sína stundum. Auk þess hefur hún mikið dálæti á rauðköflóttum borðdúkum.
Púnkturinn sem slíkur er bæði efnislegur og huglægur. Efnislegur í þeim skilningi að hann er staðsettur á sólríkum bletti rétt fyrir utan Hovedsteðen. Í raun er hann ekki stór - bara nokkrir fermetrar. Þar vaxa ávaxtatré og kryddjurtir. Túttan býr meira að segja til rabbabaragraut, eitthvað sem er löngu komið úr móð heima á Fróni. Nágrannar heilsa og spyrja frétta frá Íslandi. Já rauðköflóttur dúkur og rabbabaragrautur með flöde, dælige naboer og Túttu finnst hún vera "heima".
Púnkturinn er einnig huglægur í þeim skilningi að á honum finnst ákveðin hugarró og samsömun. Fjarri öllu amstri og áhyggjum finnur Túttan fyrir þessu genatíska sambandi við umhverfið og andrúmsloftið. Þarf ekki annað en að vinka brosmildum nágrönnum á móti. Svoooo ligeglad!
Veit að hún er partur af þessum dásamlega danska veruleikaheim sem á þátt í tilvist hennar hér á jörðinni.

mánudagur, 14. júní 2010

Tútta mannfræðingur og útvarpskona


Túttan er frekar dösuð en jafnframt glöð þessa dagana. Búin að pródúsera tvo útvarpsþætti sem hún hefur haft mikla ánægju af að vinna. Báðir tengjast hugðarefni hennar í mastersnáminu og fjalla um þá einstöku hugmynd sem hver og einn hefur um sjálfsmynd sína út frá hugmyndum um anda og efni í ljósi samfélags okkar.
Ekki nóg með það. Sérlegur kennari og mentor Túttunnar í þessu verkefni er afar impóneraður líka.
Hvers vegna? Jú, Túttan fjallar um mál sem að öllu jöfnu hafa legið í þögn. Hún varpar fram ögrandi spurningum og vekur athygli á málum sem kannski fram til þessa hafa skoðast út frá tiltölulega þröngu og sjálfhverfu sjónarhorni. Svo líkar Túttu rólegt og huglægt tempó í útvarps-útsendingu og hefur auk þess ágæta útvarpsrödd.
Þess vegna er hún leidd að lokinni þessari vinnslu þáttanna inn á kontór dagskrárstjóra beggja rása Ríkisútvarpsins. Humm... Túttan er pínu stressuð, sveitt í lófum og með smá skjálfta í hnjánum. Dagskrárstjórinn tekur henni hins vegar afar vel og sýnir hugðarefnum radio-kanditatsins mikinn áhuga.
Spurning hvort mannfræðineminn geti hugsað sér að gera fleiri þætti í þessum dúr? Hugsanlega þáttaseríu sem fjallaði um þetta tiltekna efni sem er bæði áhugavert og kemur okkar samfélagi við? Hvort hún vilji ekki hugleiða málið, koma með hugmyndir, gera uppkast að handriti, taka viðtöl og vera svo í sambandi þegar hentar???
Það er hnarreist Tútta, full af sjálfsöryggi sem strigsar út á götu í Efstaleitinu í dag. Hún fæddist klárlega ekki þegjandi þessi stúlka fyrir 50 árum!

mánudagur, 7. júní 2010

Halló halló! Einn tveir, einn tveir!


Smá prufa í gangi... heima í eldhúsi áður en lagt er af stað í útvarpsþáttagerð. Tjásubarnið liggur vel við höggi. Saklaus og hispurslaus... prufum hérna sándið og ýmiskonar umhverfishljóð. Hún er til í það. Purrum og frussum. Syngjum og sveiflum hljóðnemanum í hringi. Makalaust fyndin tækni. Baunin fær að fikta soldið sjálf í græjunum. Tekur viðtal við mömmu. Mamma tekur viðtal við hana. Báðar skellihlægja og finnst þetta geðveikt fyndið!
Svo tekur alvaran við daginn eftir. Túttan heldur af stað... skjálfhent og stressuð. Búin að mæla sér mót við einn virtasta prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands og sérlegan leiðbeinanda Túttunnar í rannsóknarverkefni hennar. Til stendur að gera 10 mínútna innslag í þátt sem er á dagskrá Rásar 1 daglega. Tútta búin að vera í meiriháttar heilabrotum síðustu daga. Semjandi handrit, leita heimilda, fá samþykki kennara og nú flengist hún um allan bæ með hljóðnema, óttalega kúl... því hún er nebblea svo mikill pródúser og framleiðandi útvarpsþátta þessa dagana... og er bara svolítið impóneruð yfir öllu saman.
Allt gengur glimrandi vel. Viðmælandinn róar þáttagerðarmanninn og viðtalið gengur hnökralaust fyrir sig.
Síðan mætir Túttan í stúdíó. Grænt ljós kviknar hljóðveri: Nú á Tútta að tala. Já einmitt! Og hún talar. Veltir upp spurningum um líffræðilegan og félagslegan skyldleika með tilliti til hugmynda í mannfræði. Ættleiðingar, tæknifrjóvganir, sæðisgjafir, staðgöngumæður. Falleg tónlist og svo kemur fyrrgreindur prófessor og leiðbeinandi með áhugavert innslag út frá sjónarhorni félagsvísinda.
Ein klukkustund í lífi Túttu sem sannar að lífið er þess virði að njóta þess! Þrátt fyrir að einn lítill hljóðnemi valdi ótrúlegum handskjálfta!

miðvikudagur, 2. júní 2010

Í bólið með Jóni

Túttan hefur átt dásamlegar stundir með honum síðustu vikur. Þegar allt er orðið kyrrt þá hittast þau. Undir sæng seint á kvöldin. Amstur dagsins að baki... gæðastund rétt fyrir svefninn á sirka 448 blaðsíðum.
Túttan hefur svosum þekkt hann lengi. Eiginlega í mörg ár. Geymir hann upp í hillu en tekur hann fram þegar hentar af og til og hún í þess lags stuði að stúdera kappann svolítið.
Hann kemur alltaf jafnmikið á óvart í hvert skipti sem fundum þeirra ber saman. Henni finnst hann hreint út sagt ómótstæðilegur. Soldið flottur en líka óþolandi sjálfumglaður. Kjaftfor, drjúgur með sig og forhertur. Luralegur en samt soldið kúl. Lætur hvorki yfirvald né álfkonur segja sér fyrir verkum. Svartur og úfinn og skín í hvítar tennurnar. Pínulítil áhugaverð pæling með hliðsjón af lokaverkefni Túttunnar um karlmennskuímyndir í Háskólanum svo ekki sé meira sagt.
Tútta nýtur þess, undir sæng á kvöldin, að upplifa magnaða sögu þessa ómótstæðilega manns.
Á föstudaginn eiga þau svo stefnumót. Klukkan sjö púntlich hittir Túttan vin sinn til margra ára, Jón Hreggviðsson á fjölum Þjóðleikshússins og hlakkar mikið til!

þriðjudagur, 1. júní 2010

Þau standa hlið við hlið...

... við kjötborðið í Fjarðarkaup.
Þykjast fyrst ekki sjá hvort annað. Verða svo á endanum að horfast í augu við þessa óþægilegu nærveru. Kinka kolli til hvors annars eins og þau hugsanlega þekkist frá fyrri tíð. Afar ópersónuleg. Góna síðan út í loftið, óþolinmóð og vandræðaleg. Bíða eftir afgreiðslu. Hann er númer fjórtán í röðinni og hún er númer fimmtán. Hann kaupir plokkfisk og hún kaupir eitt stykki rauðsprettuflak. Bíða bæði með óþreyju eftir að dótinu sé pakkað inn í frauð og plast svo þau geti haldið sína leið og brotið upp þessa fáránlegu og óvæntu tilvist beggja í matvöruversluninni.
Þekkjast þessar brjóstumkennanlegu og vandræðalegu manneskjur eitthvað?
Jú... hann þekkir hana og hún þekkir hann.
Í fimmtán ár var hann tengdafaðir hennar. Og hún var tengdadóttir hans. Í fimmtán ár áttu þau tiltölulega ánægjuleg kynni sem þróuðust í væntumþykju og samkennd. Í fyrstu bar hún óttablandna virðingu fyrir honum og hann tók stelpunni með fyrirvara. Hann var alvörugefinn og jarðbundinn en hún var fjörbelgur sem kjaftaði helling og hló oft. Eftir því sem árin liðu varð hann, með sinni heilbrigðu hugsun, fyrirmynd hennar að samheldni, fjölskylduábyrgð og væntumþykju. Og hún varð honum, með lífsgleði sinni ákveðinn gleðigjafi í annars einsleitu lífi. Það sýndi hann henni í verki síðar meir.
Og einhvern vegin fundu þau ákveðna samkennd. Fundu að þau áttu sitthvað sameiginlegt. Áttu keimlíkan bakgrunn að mörgu leiti og þráðu bæði á vissan hátt að tilheyra. Höfðu líklega bæði upplifað ákveðna höfnun. Þess vegna var alltaf einhver þráður til staðar í þessi fimmtán ár sem hann var tengdafaðirinn og hún var tengdadóttirin.
Svo breyttist allt, skyndilega. Og þau settu hvort annað út í kuldann.
Og nú standa þau, hlið við hlið í búðinni að kaupa fisk. Fjarlæg og ókunnug. Eins og þau hafi nánast aldrei þekkst.

miðvikudagur, 26. maí 2010

Stundum koma dagar þegar bráðvantar mann


Og það gerðist einmitt í dag.
Þetta var svona dagur sem kallaði á ákveðna karllæga athafnasemi sem Túttu er ekki í blóð borin. Hvorki uppeldis- né hugmyndalega séð. Tútta er nefnilega frekar íhaldsöm á viðtekin kynjahlutverk þrátt fyrir kynjafræði-stúdíu síðustu ára og femíníska hugmyndafræði upp að vissu marki. Tiltekin athafnasemi felst meðal annars í bílþvotti, sorpuferð og að slá blettinn. Fyrir utan allt sem þarf að skrúfa, bora og negla en bíður betri tíma. Þrátt fyrir að Tútta reyni að vera þessi kynlausa altmúligmanneskja og ganga í öll vel kynjagreind störf sem viðkoma húshaldi hennar eins og á dögum sem þessum þá á hún stundum erfitt með að hemja tilfinningalíf sitt undir þessum kringumstæðum. Hún kýs nefnilega frekar ákveðna viðtekna kvenlæga athafnasemi sem felst í því að hella upp á kaffi og lakka neglurnar.
Þetta fyrrgreinda tilfinningalíf umbreytir því skapferli Túttunnar á þann hátt að hún verður sérdeilis ekki aðlaðandi í skapinu. Frussar yfir lélegri bílaryksugu og ónýtum þvottakústi, fjargviðrast yfir staðsetningu nýrrar Sorpustöðvar í Hafnarfirði og rífur stólpakjaft við sláttuvél sem hefur ákveðið að fara í verkfall í dag.
Jámm... væri ekki upplagt að geyma eitt stykki karlmann niðrí geymslu? spyr Túttan sig um leið og hún lakkar neglurnar í kvöld, fær sér kaffi, dösuð eftir margslungin kynja-skilgreind hlutverk dagsins.

fimmtudagur, 20. maí 2010

Tútta horfir með furðu á varalitinn sinn!


Skilur ekki alveg í þessu. Eitthvað svo klessulegur og útklíndur. Alls ekki líkur varaliti Túttunnar sem alltaf hefur verið nákvæmlega eins í áranna rás. Vel formaður og stílhreinn eftir mjúk en markviss handbrögð hennar um þennan lögulega og kynþokkafulla líkamspart sem varir kvenna gjarnan eru. Konur kannast við svona varaliti. Algjörlega persónuleg sköpun formsins sem endurspeglar þokkafullar hreyfingar handarinnar svo og móttækilegan flötinn sem hann svo listilega speglar yfir daginn.
Jæja hugsar Tútta og setur þennan fyrrum fallega og formaða varalit oní snyrtibudduna sína... og bara skilur þetta hreinlega ekki.
Síðdegis þegar Túttan er að setja þvott í vélina finnur hún þvottapoka. Vandlega falinn á botni körfunnar. Þessi þvottapoki var eitt sinn hvítur... en nú er hann í nokkuð annarlegu ástandi. Greinilegt er að einhver hefur verið að fela vegsummerki. Þurrkað varalit í hann, bögglað honum saman og falið vel. Augljóslega vel úthugsað plott með hátæknilegri hugmyndafræði.
Hmm.... hugsar Tútta, sterklega farin að gruna hér einn ákveðinn einstakling sem vill svo til að er 10 ára og deilir með henni húshaldi.
Tútta kíkir inn um dyragættina á yngismeyjardyngjunni þar sem hin grunaða heldur til í augnablikinu. Þarna situr hún og dundar sér með leikföngin sín. Er líka að teikna og lita blómamyndir með fiðrildum og grasi og skýjum og húsum og köttum og einum hundi. Hún syngur og hlustar jafnframt á sögu frá umferðarskólanum.
Hugsanir Túttu eru svolítið ruglingslegar þessa stundina. Er þetta barn? Eða er þetta ekki barn? Þetta er klárlega ekki fullorðin manneskja. Er þetta kannski eitthvert óútskýrt fyrirbæri sem einn daginn er svekkt yfir hversu mikil lumma hún er á skólaskemmtun á meðan bekkjarsystur mæta með brúnkukrem, maskara og gervineglur? Og hinn daginn sem hún er svo kát yfir að gösla úti með skóflu, fötu og vatn í flösku af því það er svo óendanlega gaman að sulla og drullumalla?
Svei mér þá... Túttan er ekki viss. Jafnframt lætur hún stöðu hinnar grunuðu í varalitsmálinu falla niður. Af mannúðar- og móðurástæðum.

þriðjudagur, 18. maí 2010

Fimmtug og farsæl

Nýr dagur og nú í Undralandi.
Tútta vaknaði í morgun í með aðeins öðruvísi tilfinningatempó en venjulega. Ástæðan er líklega sú að hún er degi eldri en þegar hún sofnaði í gærkvöldi. Þetta er nú svo sem ekkert ólíkt því sem hún upplifir með hverjum nýjum degi... nema þessi dagur er svolítið öðruvísi. Tútta er nefnilega að upplifa sinn fimmtugasta afmælisdag í dag. Þetta tilefni gaf henni tækifæri til að kúra aðeins lengur undir sænginni og hugsa um lífið og tilveruna. Hugsa yfir farin veg og jafnframt þann sem vonandi er væntanlegur. Hún sá fyrir sér þetta furðulega fyrirbæri, sitt eigið líf, sem liðið hefur hjá með öllum sínum litríku stundum.
Og Tútta gerist örlítið tilfinninganæm. Snýtir sér og þurkar meira að segja smá tár í sængurhornið. Ekki vegna þess að hún er sorgmædd, heldur vegna þess hversu færsæl henni finnst hún hafa verið. Hún hefur fengið að upplifa allt litróf lífsins á þessum árum frá því hún fæddist. Og fyrir það er hún þakklát. Hún er líka þakklát fyrir að lifa þennan dag í dag. Það er ekkert sjálfgefið að fólk nái þessum aldri sem Túttan er að gleðjast yfir nú. Þess vegna snýtir hún sér aftur hressilega, þurkar sitt hvort tárið og stígur framúr... og inn í þetta undraland sem lífið er.
Þessi bloggsíða var á sínum tíma smá gleðigjafi í lífi Túttunnar þegar hún dvaldi fjarri. Núna verður hún vettvangur fyrir alls kyns pælingar og þankagang sem fimmtugri og farsælli konu dettur í hug hverju sinni... að minnsta kosti á meðan hún nennir að skrifa. Aukaatriði er hvort einhver nennir að lesa. Það er nefnilega svo gaman að setja sumt sem er í kollinum í ritmál og skoða það svo síðan með mátulegum skammti af húmor - ekki síst fyrir sjálfum sér. Ef þankagangur Túttunnar ratar í góðan jarðveg sálarlífs hennar sjálfrar þá er tilganginum náð.
Svo má alltaf snýta sér í sængurhornið á kvöldin, brosa út að eyrum og þakka fyrir hvern dag sem okkur mannfólki er gefinn í þessu Undralandi sem lífið er.