
Þetta ávarp mannsins sem telur taktfast um leið og hann tekur í spaðann á Túttu er til komið vegna þess að þau standa á móti hvort öðru á nýlögðu parketgólfi í einum sérhæfðum dansskóla hér í bæ. Þau eru sumsé pöruð saman í dansi örstutta stund samkvæmt fyrirmælum kennarans sem stjórnar með glæsibrag hópi fólks á þessu tiltekna parketgólfi. Allt þetta fólk er nefnilega samankomið hér til að læra Salsa.
-Einn tveir þrír... sæll! segir Túttan á móti og kynnir sig fyrir Gísla en passar jafnframt upp á að telja taktfast sjálf, til að búkurinn og síðast en ekki síst fæturnir missi nú ekki ryþman sem hún er að reyna að halda við þessar krefjandi en jafnframt seiðandi aðstæður. Einnig fylgist hún laumulega með sjálfri sér í stórum spegli á veggnum svona til að tékka á hvort lúkkið, flörtið og fasið sé ekki örugglega í lagi. Slíkt verður sérdeilis að vera í toppstandi í kvöld - af gefnu tilefni. Nú róterar kennarinn hópnum upp á nýtt svo allir prófi nú nýjan dansfélaga. Og Tútta kveður Gísla sem snarar sér að næstu dans-dömu með tilheyrandi einn tveir þrír ávarpi á meðan Tútta skimar einbeitt yfir dansgólfið. Og hún veitir athygli einni vel straujaðri skyrtu á einum mjög sætum manni út í sal. Fær í leiðinni pínu skjálfta í hnéskeljarnar.
Tútta er sem sagt komin á Salsa-námskeið næstu fimm vikur. Eftir mjaðmasveiflur sumarsins og nokkra prufutíma í listgreininni ákvað hún að skella sér á eitt slíkt námskeið. Og ekki nóg með það, heldur mætir hún með dansfélaga með sér - af albestu sort.
Túttu finnst hann sætur og skyrtan hans er sérlega smart - og vel straujuð. Túttan er þess vegna bara drjúg með sig og borubrött í þessum fyrsta Salsatíma því bæði hafa þau tjúttað aðeins saman áður. Þau eru nokkuð klár á mjaðmasveiflum hvors annars og Tútta telur sig því tiltölulega örugga í dansinum við hann. Hún lifir sig inn í sveifluna og er ekki að hafa miklar áhyggjur af sporatalningunni í þetta sinn. En hugsanlega er hún pínulítið að ofmeta Salsa-kunnáttu sína og tilheyrandi hæfni , því þegar dansfélaginn, þessi sæti í straujuðu skyrtunni, tekur upp á því að klípa nett í rassinn á henni í einni sveiflunni þá fipast henni all hrapalega. Hún missir taktinn, fylgir ekki tónlistinni, horfir flöktandi og ráðvilltu augnaráði til beggja hliða, horfir með undrun niður á lappirnar sem ekki vilja hlýða, lítur svo að lokum vandræðaleg á dansfélagann sem skælbrosir og skemmtir sér klárlega vel yfir uppátækinu! Hann "botnaði" mómentið sumsé algjörlega með stæl!
Eh!... uh.! Þrátt fyrir að Tútta missi niður glæsilegt Salsa-appearansið eitt augnablik þá getur hún ekki annað en skælbrosað á móti.
Því henni finnst þetta eitthvað svo voðalega sætt og skemmtilegt allt saman!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli