
Hún velur sér fötin í skólann í dag af mikilli kostgæfni. Skiptir þrisvar áður en klukkan verður átta. Pils eða gallabuxur? Fín í tilefni dagsins? Kasjúal eða kúl? Hárspöng eða tagl? Slétt kannski? Ætlar að endurskoða stöðuna að loknum skóla og áður en bekkjarsystur mæta í partý síðdegis. Kyssir Túttumömmu bless og tekur loforð af henni að vera nú ekki mikið áberandi í fyrrgreindu partýi. Túttumamma á sumsé hvorki að reyna að vera fyndin fyrir afmælisgesti né að láta gestrisni stíga sér til höfuðs.
Gott mál og afgreitt á staðnum.
Klukkan fjögur púntlich mætir á svæðið búnki af hnátum sem eru einnig ellefu ára - og Túttumömmu er ljóst að þær glíma við sama konsept og Bimsubarnið. Eru ekki alveg vissar hvort þær séu börn, fullorðnar eða eitthvað þar á milli. Á milli þess sem þær leika sér, dansa og flissa, fara í spurningaleiki og hlutverkaleiki vindur sér ein hnátan að Túttumömmu:
-Mikið óskaplega eru þetta góðar pizzur hjá þér! segir hún kotroskin. Túttumamma þakkar komplimentið og er ekki alveg viss um hvurnin hún eigi að taka því, hafandi verslað guðdóminn í Bónus fyrr um daginn. Stuttu síðar kemur önnur hnáta inn í eldhús þar sem Túttumamma heldur sig til hlés. -Óskaplega er þetta fallegt heimili sem þið eigið! Ég er einmitt svo hrifin af svona nútímahönnun! Allt svo stílhreint og fallegt! Nú er Túttumamma orðlaus. Hún kíkir ofurvarlega inn í stofu. Á þennan búnka af ellefu ára hnátum sem einmitt núna eru í "Frosin!" leik. Og hún er forvitin um hversu líf og þroski manneskjunnar er fjölbreyttur. Að vera barn og fullorðin í sömu andrá hlýtur að vera afar krefjandi djobb. En örugglega skemmtilegt og ögrandi.
Ánægjulegum afmælisdegi Bimsubarnsins lýkur með bíóferð. Aðal-mennirnir í lífinu eru mættir á svæðið. Bræðurnir sem hún dýrkar og dáir kippa ellefu ára Bimsuskvísunni (sem enn og aftur hefur haft fataskipti) upp í bíl og bruna af stað. Búin að kyssa Túttumömmu bless og þakka henni fyrir ánægjulegan dag og ekki síst fyrir ósýnileikann í boðinu.
Túttumamma situr heima, dösuð og lygnir aftur augunum. Huxar.
Huxar um hversu yndislegt það hljóti að vera... að vera ellefu ára. Vera barn stundum. Og stundum ekki. Fá heillaóskir, gesti og gjafir. Fá líka símtal úr Suðurbænum. Símtal sem Túttumamma lagði inn pöntun fyrir... fyrir um ári síðan.
Jámm... Ellefu ára og dásamlega hamingjusöm!
2 ummæli:
Æj dúllan - hún er nú hálfgerð Múslína þarna sýnist mér fullorðna barnið þitt :-) knús á hana frá mér - kv. Ragga
ps. takk fyrir blogg - gaman að lesa eins og ávallt Gulla mín.
Takk Ragga mín! Nú held ég sé mál að blogga bráðlega um þennan spaugilega saumaklúbb okkar - klárlega af nógu efni að taka!
Skrifa ummæli