laugardagur, 4. september 2010

Vá! Rosalega eru þið líkar!!!...

... segir alls ókunnugur afgreiðslumaður í ónafngreindri verslun við Túttumömmu og Tjásubarnið einn síðdegiseftirmiðdag í liðinni viku.
Það er svosum ekkert óalgengt að fólk sjái svip með líffræðilega skyldum einstaklingum en þetta komment afgreiðlsumannsins hefur í för með sér skringilega tilfinningu hjá Túttu. Á meðan hún skælbrosir og segir eins og bjáni: Eh! Já! Finnst þér það?!!! fer um hana sælutilfinning sem er bæði ljúf en einnig svolítið framandi. Framandi vegna þess að Túttu finnast líffræðileg tengsl, genatísk arfleið frá einum einstaklingi til annars, frá foreldri til afkvæmis alveg óskaplega merkilegt fyrirbæri. Sælutilfinning vegna þess að hún fær staðfestingu á líffræðilegri arfleið sinni sem henni finnst nánast guðdómleg staðreynd. Er þess vegna makalaust impóneruð yfir að einhver ókunnugur aðili út í bæ sér, að líkur sækir líkan heim. En hvers vegna þessi skrítna tilfinning?
Hugsanlega vegna þess að Túttan er sjálf hálfgert eyland í erfðafræðilegum skilningi. Ættleidd á þartilgerðum pappírum og foreldralaus manneskja í Íslendingabók. Tengist hvorki manni né mús. Upplifir sig sem einhvers konar pottablóm með rætur í tilbúnum jarðvegi, fjarri þeim upprunalega og náttúrulega. Eða, félagslegt "statement" sem á að uppfylla ákveðin skilyrði um hefðbundnar væntingar samfélagsins? Barnleysi hjóna og hefðbundið fjölskyldumynstur?
Eina líffræðilega tengingin sem Tútta á, og brosir breitt yfir, eru afkvæmin þrjú sem hún hefur fætt í þennan heim. Þrjú börn, tvær fæðingar. Og hún vanmetur þá tengingu svo sannarlega ekki. Dásamlegri gjöf er vart hægt að hugsa sér. Strákarnir hávaxnir og glæsilegir eins og föðurættin, tjásubarnið lík mömmu sinni á allan mögulegan og ómögulegan hátt. Stórmerkilegt fyrirbæri að mati Túttunnar sem iðulega tekur mannfræðipólinn í þankagang sem þennan.
Nokkuð sérkennilegur þankagangur um líffræðileg tengsl Túttunnar. Allt í kring, fyrir utan, er ókunnugt, lokað, dularfullt, ósagt - sem leiðir hugann að annars konar skrítinni tilfinningu. Tilfinningu sem gerði vart við sig í sömu viku og Túttan skælbrosti til afgreiðslumannsins með aulasvip, gleði og furðu!
Tútta situr í eldhúsinu sínu og heyrir að inn um bréfalúguna berst póstur. Og þar sem hún stendur í forstofunni kemur þessi skrítna tilfinning aftur. Allt í einu heldur Túttan á blaði. Svona prógrammi sem úthlutað er kirkjugestum við jarðarfarir. Með mynd af hinum látna, nafni, dánardægri og útfarar-ritúali. Og hún sér að þetta er náskyldur líffræðilegur ættingi, föðurbróðir, sem nýlega er látinn. Búið að jarða. Þau hittust fyrir margt löngu - hann fylgdist með henni úr fjarlægð... af því hún var dóttir bróður hans. Og það var gott.
Einhver sem veit af þessum líffræðilega skyldleika við Túttuna hefur lætt þessu prógrammi inn um bréfalúguna. Gerir ekki vart við sig. Keyrir í burtu. Og Túttan stendur í forstofunni, pínulítið hissa, ringluð og döpur. Horfir á myndina af föðurbróðurnum sem hún aldrei fékk að kynnast. Hefði viljað vera við útförina þrátt fyrir að þekkja hann nánast ekki neitt. Hefði viljað vita hver það var sem læddist að bréfalúgunni og fór svo í burtu án þess að gera vart við sig. Túttu langaði að sjá, snerta, spyrja. Fá að vera með. Það er ekki hægt.
En það er hægt að gleðjast óendanlega mikið þegar ókunnugur einstaklingur segir við Túttu og Tjásu í ísbúð: Vá! Rosalega eru þið líkar!!!

Engin ummæli: