miðvikudagur, 2. júní 2010

Í bólið með Jóni

Túttan hefur átt dásamlegar stundir með honum síðustu vikur. Þegar allt er orðið kyrrt þá hittast þau. Undir sæng seint á kvöldin. Amstur dagsins að baki... gæðastund rétt fyrir svefninn á sirka 448 blaðsíðum.
Túttan hefur svosum þekkt hann lengi. Eiginlega í mörg ár. Geymir hann upp í hillu en tekur hann fram þegar hentar af og til og hún í þess lags stuði að stúdera kappann svolítið.
Hann kemur alltaf jafnmikið á óvart í hvert skipti sem fundum þeirra ber saman. Henni finnst hann hreint út sagt ómótstæðilegur. Soldið flottur en líka óþolandi sjálfumglaður. Kjaftfor, drjúgur með sig og forhertur. Luralegur en samt soldið kúl. Lætur hvorki yfirvald né álfkonur segja sér fyrir verkum. Svartur og úfinn og skín í hvítar tennurnar. Pínulítil áhugaverð pæling með hliðsjón af lokaverkefni Túttunnar um karlmennskuímyndir í Háskólanum svo ekki sé meira sagt.
Tútta nýtur þess, undir sæng á kvöldin, að upplifa magnaða sögu þessa ómótstæðilega manns.
Á föstudaginn eiga þau svo stefnumót. Klukkan sjö púntlich hittir Túttan vin sinn til margra ára, Jón Hreggviðsson á fjölum Þjóðleikshússins og hlakkar mikið til!

Engin ummæli: