
Þykjast fyrst ekki sjá hvort annað. Verða svo á endanum að horfast í augu við þessa óþægilegu nærveru. Kinka kolli til hvors annars eins og þau hugsanlega þekkist frá fyrri tíð. Afar ópersónuleg. Góna síðan út í loftið, óþolinmóð og vandræðaleg. Bíða eftir afgreiðslu. Hann er númer fjórtán í röðinni og hún er númer fimmtán. Hann kaupir plokkfisk og hún kaupir eitt stykki rauðsprettuflak. Bíða bæði með óþreyju eftir að dótinu sé pakkað inn í frauð og plast svo þau geti haldið sína leið og brotið upp þessa fáránlegu og óvæntu tilvist beggja í matvöruversluninni.
Þekkjast þessar brjóstumkennanlegu og vandræðalegu manneskjur eitthvað?
Jú... hann þekkir hana og hún þekkir hann.
Í fimmtán ár var hann tengdafaðir hennar. Og hún var tengdadóttir hans. Í fimmtán ár áttu þau tiltölulega ánægjuleg kynni sem þróuðust í væntumþykju og samkennd. Í fyrstu bar hún óttablandna virðingu fyrir honum og hann tók stelpunni með fyrirvara. Hann var alvörugefinn og jarðbundinn en hún var fjörbelgur sem kjaftaði helling og hló oft. Eftir því sem árin liðu varð hann, með sinni heilbrigðu hugsun, fyrirmynd hennar að samheldni, fjölskylduábyrgð og væntumþykju. Og hún varð honum, með lífsgleði sinni ákveðinn gleðigjafi í annars einsleitu lífi. Það sýndi hann henni í verki síðar meir.
Og einhvern vegin fundu þau ákveðna samkennd. Fundu að þau áttu sitthvað sameiginlegt. Áttu keimlíkan bakgrunn að mörgu leiti og þráðu bæði á vissan hátt að tilheyra. Höfðu líklega bæði upplifað ákveðna höfnun. Þess vegna var alltaf einhver þráður til staðar í þessi fimmtán ár sem hann var tengdafaðirinn og hún var tengdadóttirin.
Svo breyttist allt, skyndilega. Og þau settu hvort annað út í kuldann.
Og nú standa þau, hlið við hlið í búðinni að kaupa fisk. Fjarlæg og ókunnug. Eins og þau hafi nánast aldrei þekkst.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli