
Tútta á leið niður í miðbæ þess höfuðstaðar sem hvað lengst píndi íslenska misyndismenn hér á öldum áður. Nú eru þeir ekki lengur píndir heldur sitja á torginu góða og dásama danskt veður, danskan öl og dansk smörrebröd naturligvis. Túttan kinkar kolli til landa sinna... ved jo godt hvordan det er at være ligeglad í Danmark.
Tútta er á leið niður í Fiolestræde. Þar sem De Kongelige Bibliotek er til húsa. Hún einhvern veginn límdist við þennan tiltekna stað þegar hún var stúdína hér forðum... og á einhvern óútskýranlegan hátt dregst hún að staðnum aftur... og aftur.
Þetta er svona bókasafn sem er með sérstakri lykt. Og fornu starfsfólki. Það er algjör þögn nema þegar einhver gengur eftir köldu steingólfinu. Konur og menn með gleraugu og rykfallnar axlir. Sólarljósið að utan gerir umhverfið, veggina og gólfið, röndótt og þokukennt. Þetta er líka svona bókasafn þar sem þarf að klifra upp í stiga. Og Tútta klifrar. Veit hvar hún á að leita. Fimmta röð frá hægri... við hliðina á sósíal-þeoríu-deildinni.
Og Tútta er allt í einu komin langt upp í hillu númer níu sem er sú þriðja frá lofti. Og þarna eru þær.... í löngum röðum. Dásamlegar! Virðast einhvern vegin vera sjálflýsandi í öllu þessu bókahafi. Skera sig úr á einhvern hátt. Svo áhugaverðar og spennandi. Mannfræðin í öllum sínum fjölbreytileika og á öllum tungumálum.
Ljómandi Túttuandlitið lítur dagsins ljós þegar liðið er á síðdegið. Sólin skín enn, landarnir orðnir góðglaðir á torginu og Túttan endurnærð eftir stefnumót við góða tíma forðum og hugðarefni sem henni er alltaf nálægt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli