mánudagur, 7. júní 2010

Halló halló! Einn tveir, einn tveir!


Smá prufa í gangi... heima í eldhúsi áður en lagt er af stað í útvarpsþáttagerð. Tjásubarnið liggur vel við höggi. Saklaus og hispurslaus... prufum hérna sándið og ýmiskonar umhverfishljóð. Hún er til í það. Purrum og frussum. Syngjum og sveiflum hljóðnemanum í hringi. Makalaust fyndin tækni. Baunin fær að fikta soldið sjálf í græjunum. Tekur viðtal við mömmu. Mamma tekur viðtal við hana. Báðar skellihlægja og finnst þetta geðveikt fyndið!
Svo tekur alvaran við daginn eftir. Túttan heldur af stað... skjálfhent og stressuð. Búin að mæla sér mót við einn virtasta prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands og sérlegan leiðbeinanda Túttunnar í rannsóknarverkefni hennar. Til stendur að gera 10 mínútna innslag í þátt sem er á dagskrá Rásar 1 daglega. Tútta búin að vera í meiriháttar heilabrotum síðustu daga. Semjandi handrit, leita heimilda, fá samþykki kennara og nú flengist hún um allan bæ með hljóðnema, óttalega kúl... því hún er nebblea svo mikill pródúser og framleiðandi útvarpsþátta þessa dagana... og er bara svolítið impóneruð yfir öllu saman.
Allt gengur glimrandi vel. Viðmælandinn róar þáttagerðarmanninn og viðtalið gengur hnökralaust fyrir sig.
Síðan mætir Túttan í stúdíó. Grænt ljós kviknar hljóðveri: Nú á Tútta að tala. Já einmitt! Og hún talar. Veltir upp spurningum um líffræðilegan og félagslegan skyldleika með tilliti til hugmynda í mannfræði. Ættleiðingar, tæknifrjóvganir, sæðisgjafir, staðgöngumæður. Falleg tónlist og svo kemur fyrrgreindur prófessor og leiðbeinandi með áhugavert innslag út frá sjónarhorni félagsvísinda.
Ein klukkustund í lífi Túttu sem sannar að lífið er þess virði að njóta þess! Þrátt fyrir að einn lítill hljóðnemi valdi ótrúlegum handskjálfta!

Engin ummæli: