föstudagur, 18. júní 2010

Það hlýtur að vera eitthvað með aðdráttarafl jarðar...

... sem dregur Túttuna ávallt á einn ákveðinn púnkt á jörðinni á þessum árstíma.
Þessi púnktur er staðsettur í Danskalandinu, landinu þar sem Tútta á að hluta til uppruna sinn að sækja.
Eða kannski er þetta eitthvað genatískt? Þetta aðdráttarafl sem hún finnur fyrir þegar hún sogast að þessum tiltekna púnkti. Það gæti hugsast að í blóði Túttunnar sé svona ákveðin dönsk stemmning. Ekki ólíklegt... því henni finnst hún vera örlítið á skjön við íslenska tilveru sína stundum. Auk þess hefur hún mikið dálæti á rauðköflóttum borðdúkum.
Púnkturinn sem slíkur er bæði efnislegur og huglægur. Efnislegur í þeim skilningi að hann er staðsettur á sólríkum bletti rétt fyrir utan Hovedsteðen. Í raun er hann ekki stór - bara nokkrir fermetrar. Þar vaxa ávaxtatré og kryddjurtir. Túttan býr meira að segja til rabbabaragraut, eitthvað sem er löngu komið úr móð heima á Fróni. Nágrannar heilsa og spyrja frétta frá Íslandi. Já rauðköflóttur dúkur og rabbabaragrautur með flöde, dælige naboer og Túttu finnst hún vera "heima".
Púnkturinn er einnig huglægur í þeim skilningi að á honum finnst ákveðin hugarró og samsömun. Fjarri öllu amstri og áhyggjum finnur Túttan fyrir þessu genatíska sambandi við umhverfið og andrúmsloftið. Þarf ekki annað en að vinka brosmildum nágrönnum á móti. Svoooo ligeglad!
Veit að hún er partur af þessum dásamlega danska veruleikaheim sem á þátt í tilvist hennar hér á jörðinni.

Engin ummæli: