
Skilur ekki alveg í þessu. Eitthvað svo klessulegur og útklíndur. Alls ekki líkur varaliti Túttunnar sem alltaf hefur verið nákvæmlega eins í áranna rás. Vel formaður og stílhreinn eftir mjúk en markviss handbrögð hennar um þennan lögulega og kynþokkafulla líkamspart sem varir kvenna gjarnan eru. Konur kannast við svona varaliti. Algjörlega persónuleg sköpun formsins sem endurspeglar þokkafullar hreyfingar handarinnar svo og móttækilegan flötinn sem hann svo listilega speglar yfir daginn.
Jæja hugsar Tútta og setur þennan fyrrum fallega og formaða varalit oní snyrtibudduna sína... og bara skilur þetta hreinlega ekki.
Síðdegis þegar Túttan er að setja þvott í vélina finnur hún þvottapoka. Vandlega falinn á botni körfunnar. Þessi þvottapoki var eitt sinn hvítur... en nú er hann í nokkuð annarlegu ástandi. Greinilegt er að einhver hefur verið að fela vegsummerki. Þurrkað varalit í hann, bögglað honum saman og falið vel. Augljóslega vel úthugsað plott með hátæknilegri hugmyndafræði.
Hmm.... hugsar Tútta, sterklega farin að gruna hér einn ákveðinn einstakling sem vill svo til að er 10 ára og deilir með henni húshaldi.
Tútta kíkir inn um dyragættina á yngismeyjardyngjunni þar sem hin grunaða heldur til í augnablikinu. Þarna situr hún og dundar sér með leikföngin sín. Er líka að teikna og lita blómamyndir með fiðrildum og grasi og skýjum og húsum og köttum og einum hundi. Hún syngur og hlustar jafnframt á sögu frá umferðarskólanum.
Hugsanir Túttu eru svolítið ruglingslegar þessa stundina. Er þetta barn? Eða er þetta ekki barn? Þetta er klárlega ekki fullorðin manneskja. Er þetta kannski eitthvert óútskýrt fyrirbæri sem einn daginn er svekkt yfir hversu mikil lumma hún er á skólaskemmtun á meðan bekkjarsystur mæta með brúnkukrem, maskara og gervineglur? Og hinn daginn sem hún er svo kát yfir að gösla úti með skóflu, fötu og vatn í flösku af því það er svo óendanlega gaman að sulla og drullumalla?
Svei mér þá... Túttan er ekki viss. Jafnframt lætur hún stöðu hinnar grunuðu í varalitsmálinu falla niður. Af mannúðar- og móðurástæðum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli