þriðjudagur, 18. maí 2010

Fimmtug og farsæl

Nýr dagur og nú í Undralandi.
Tútta vaknaði í morgun í með aðeins öðruvísi tilfinningatempó en venjulega. Ástæðan er líklega sú að hún er degi eldri en þegar hún sofnaði í gærkvöldi. Þetta er nú svo sem ekkert ólíkt því sem hún upplifir með hverjum nýjum degi... nema þessi dagur er svolítið öðruvísi. Tútta er nefnilega að upplifa sinn fimmtugasta afmælisdag í dag. Þetta tilefni gaf henni tækifæri til að kúra aðeins lengur undir sænginni og hugsa um lífið og tilveruna. Hugsa yfir farin veg og jafnframt þann sem vonandi er væntanlegur. Hún sá fyrir sér þetta furðulega fyrirbæri, sitt eigið líf, sem liðið hefur hjá með öllum sínum litríku stundum.
Og Tútta gerist örlítið tilfinninganæm. Snýtir sér og þurkar meira að segja smá tár í sængurhornið. Ekki vegna þess að hún er sorgmædd, heldur vegna þess hversu færsæl henni finnst hún hafa verið. Hún hefur fengið að upplifa allt litróf lífsins á þessum árum frá því hún fæddist. Og fyrir það er hún þakklát. Hún er líka þakklát fyrir að lifa þennan dag í dag. Það er ekkert sjálfgefið að fólk nái þessum aldri sem Túttan er að gleðjast yfir nú. Þess vegna snýtir hún sér aftur hressilega, þurkar sitt hvort tárið og stígur framúr... og inn í þetta undraland sem lífið er.
Þessi bloggsíða var á sínum tíma smá gleðigjafi í lífi Túttunnar þegar hún dvaldi fjarri. Núna verður hún vettvangur fyrir alls kyns pælingar og þankagang sem fimmtugri og farsælli konu dettur í hug hverju sinni... að minnsta kosti á meðan hún nennir að skrifa. Aukaatriði er hvort einhver nennir að lesa. Það er nefnilega svo gaman að setja sumt sem er í kollinum í ritmál og skoða það svo síðan með mátulegum skammti af húmor - ekki síst fyrir sjálfum sér. Ef þankagangur Túttunnar ratar í góðan jarðveg sálarlífs hennar sjálfrar þá er tilganginum náð.
Svo má alltaf snýta sér í sængurhornið á kvöldin, brosa út að eyrum og þakka fyrir hvern dag sem okkur mannfólki er gefinn í þessu Undralandi sem lífið er.

Engin ummæli: