laugardagur, 17. júlí 2010

Ætlarðu að reyta arfann með hugaraflinu?


... spyr nágrannakonan og góð vinkona Túttu.

Líklega ástæða að spyrja, því Túttan hefur haft við vinkonuna stóryrt plön alla vikuna um upprætingu þessa arfa sem vex í blómabeðinu og nú skyldi ráðast á með kjafti og klóm þessa helgi. Góðviðrið og sólin skulu svo hjálpa til við að gera þetta leiðindaverk að guðdómlegri athöfn.
En hugsanlega er einhver ástæða fyrir að nágrannakonan spyr því hún horfir með undrunaraugum á Túttuna sem liggur á sólbekk, ótrúlega slök og gónir á illgresið pínulítið annars hugar, hálfpartinn utan við sig og greinilega ekki í stuði fyrir verkerkefnið.

Hvað veldur? Af hverju er Túttan svona fjarlæg og dreymin á svip? Er hún búin að lesa of mikið af krimmum og rómönsum í sumarfríinu? Svolítið svona í öðrum veruleikaheimi? Í fríi frá skólabókum og hefur farið hamförum í afrþeyingarhillum bókasafnsins?
Eða er hún að taka þessu saklausa sumri á einhvern hátt of alvarlega?

Af hverju er hún bara kjur á sólbekknum og blimskakkar augunum á arfann sem vex og dafnar í beðinu án nokkurs áreitis frá skóflu, klóru og viðeigandi útbúnaðar? Og virðist einhvern veginn vera alveg sama?

Líklega er það vegna þess að einhver skrítin tilfinning er innan í Túttu þessa dagana. Einhver tilfinning sem hvorki orsakast af daglegu amstri né huglægum vangaveltum um fortíð, nútíð eða framtíð. Þessi tilfinning er sumsé alveg ný. Byrjaði einhvern tíma í vikunni sem leið, alveg óvart og án nokkurs fyrirvara. Góð tilfinning. Svolítið sæt og unaðsleg. Pínulítið spennandi í ofanálag. Eiginlega þannig formuð að Túttan bara gónir á arfann, heldur áfram að liggja á sólbekknum og jánkar nágrannakonunni.
Jú, jú, hún líklega reytir arfa-ófétið með hugarfluginu. Er nebblea upptekin við annað.


Engin ummæli: