laugardagur, 14. ágúst 2010

"Að dansa" er ekki það sama og "að dansa"...


... því hefur Túttan kynnst á þessu sólríka sumri sem nú er að líða.
Túttu finnst nefnilega gaman að dansa og hefur stöku sinnum farið út með vinkonum sínum þegar sumarnóttin hefur verið sem björtust og mannlífið svo óskaplega glatt og brosandi. Og stundum hefur henni verið boðið upp í dans af herramönnum. Þegar Tútta rifjar upp dansmóment sumarsins er henni hugsað til misjafnrar tækni og nálgunar sem dansherrar nota þegar þeir spotta út sæta stelpu og bjóða upp í dans. Og jafnframt hugsar hún út frá kynjafræðilegum perspektívum hvers vegna sumt virkar og sumt ekki þegar karlmaður, annars vegar, og kvenmaður hins vegar eiga í hlut.
Dæmi 1: (Á tilteknum skemmtistað í hundrað og einum).
-Mábjóðaéríglas? ropar hann framan í Túttuna þar sem hún situr ásamt vinkonum.
- Nei takk, svarar Tútta og finnst vodka+kók lyktin af honum vond. -Ókei segir hann og skekur sér í sætinu... hann vill nú samt spjalla við dömuna. -Ég fer í ræktina sex sinnum í viku segir hann og hnykklar upphandleggsvöðvana. -Jæja, er það já? Gott fyrir þig, svarar Tútta. Hann er í skyrtu sem hneppt er niður á miðja bringu. Mjööög tanaður og líklega búinn að láta hvítta í sér tennurnar. Hann upplýsir Túttuna einnig hversu rooosalega vel honum vegni í lífinu, allt sé bara æææðislegt og frááábært og geeeðveikislega skemmtilegt!
-Já er það? Tútta hefur engan sérstakan áhuga á þessu ótrúlega frábæra lífi mannsins en lætur til leiðast og jánkar þegar hann ropar aftur: Koddadansa!! Og Túttan er komin út á dansgólf ásamt herranum. Fín tónlist og fullt af glöðu fólki. Skyndilega finnst Túttu hún vera í fyndinni bíómynd: Herrann hristir sig og skekur, sperrir tanaðan brjóstkassann og gónir stíft á kvenfólkið sem er að dansa í kringum hann. Tútta reynir að ná athygli mannsins því hún hélt að þau væru að dansa saman?! Það reynist erfitt. Hann bara er í trufluðum og taktföstum búkhreyfingum um allt dansgólf, augljóslega mjög meðvitaður um sjálfan sig. Túttan, sem er alls ekki feminísk þessa stundina og kærir sig ekki um að vera eitthvað sjálfstætt og óháð fyrirbæri þarna á miðju dansgólfinu lætur sig hverfa. Og dansherrann tekur ekki einu sinni eftir því, enda farinn að sprikla og hnykkla vöðvana fyrir framan allt aðra konu!
Dæmi 2: (Nokkrum vikum seinna og gerist á sama stað við svipaðar aðstæður).
-Má bjóða þér að dansa? er hvíslað í eyra Túttu og komið ofurlaust við öxlina þar sem hún situr með vinkonum. -Nei takk! svarar Tútta snögg, minnug dansreynslunnar fyrir nokkrum vikum. Hún lítur jafnframt á þennan hæverska mann sem snertir öxlina svona ofurblítt. -Eða... Jú takk! segir hún og skiptir um skoðun á sekúndubroti. Það er nefnilega eitthvað í einlægu fari hans sem er eitthvað svo ómótstæðilegt. Augnráðið, snertingin, hvíslið og ekki síst, látlaust fasið. Og þau dansa. Eru í raun bara tvö ein á dansgólfinu þrátt fyrir alla mannmergðina. Þannig upplifir Tútta alla vega þessa heillandi stund. En hvernig má það vera? Jú, hann brosir allan tímann og horfir stöðugt í augun á Túttu. Heldur þétt utan um hana, sveiflar henni hringi og kreistir á svo seiðandi og sjarmerandi hátt. Lætur hana finna að það sé engin einasta önnur kona á dansgólfinu nema akkúrat hún. Og Tútta fer pínu hjá sér og brosir á móti. Finnur hnéskeljarnar bráðna og örlítið kitl í maganum. Finnst hann óskaplega sætur og sjarmerandi. Horfir á móti, alveg dáleidd og dolfallin.Finnur líka að öll feminísk hugmyndafræði á ekki erindi inn á þetta dansgólf.
Og hann fylgir henni aftur að borðinu þar sem vinkonurnar sitja, sest hjá henni og heldur áfram að brosa og horfa... beint í augun á Túttu.
Já, "að dansa" er sko klárlega ekki það sama og "að dansa".

Engin ummæli: