mánudagur, 14. júní 2010

Tútta mannfræðingur og útvarpskona


Túttan er frekar dösuð en jafnframt glöð þessa dagana. Búin að pródúsera tvo útvarpsþætti sem hún hefur haft mikla ánægju af að vinna. Báðir tengjast hugðarefni hennar í mastersnáminu og fjalla um þá einstöku hugmynd sem hver og einn hefur um sjálfsmynd sína út frá hugmyndum um anda og efni í ljósi samfélags okkar.
Ekki nóg með það. Sérlegur kennari og mentor Túttunnar í þessu verkefni er afar impóneraður líka.
Hvers vegna? Jú, Túttan fjallar um mál sem að öllu jöfnu hafa legið í þögn. Hún varpar fram ögrandi spurningum og vekur athygli á málum sem kannski fram til þessa hafa skoðast út frá tiltölulega þröngu og sjálfhverfu sjónarhorni. Svo líkar Túttu rólegt og huglægt tempó í útvarps-útsendingu og hefur auk þess ágæta útvarpsrödd.
Þess vegna er hún leidd að lokinni þessari vinnslu þáttanna inn á kontór dagskrárstjóra beggja rása Ríkisútvarpsins. Humm... Túttan er pínu stressuð, sveitt í lófum og með smá skjálfta í hnjánum. Dagskrárstjórinn tekur henni hins vegar afar vel og sýnir hugðarefnum radio-kanditatsins mikinn áhuga.
Spurning hvort mannfræðineminn geti hugsað sér að gera fleiri þætti í þessum dúr? Hugsanlega þáttaseríu sem fjallaði um þetta tiltekna efni sem er bæði áhugavert og kemur okkar samfélagi við? Hvort hún vilji ekki hugleiða málið, koma með hugmyndir, gera uppkast að handriti, taka viðtöl og vera svo í sambandi þegar hentar???
Það er hnarreist Tútta, full af sjálfsöryggi sem strigsar út á götu í Efstaleitinu í dag. Hún fæddist klárlega ekki þegjandi þessi stúlka fyrir 50 árum!

2 ummæli:

Unknown sagði...

Ég er ennþá að rifna úr stolti yfir þessum frábæra árangri hjá þér elsku Gulla mín!

Kristín B. sagði...

Jidúddamía! En æðislegt! Til lukku með þetta! :)