miðvikudagur, 30. júní 2010

Túttan og Tjásan ákveða sveitaferð...


... með góðum hópi fólks sem ætlar sér að njóta íslensks sumars á meðan það gefst.
Túttan smitast af slíkum hughrifum og áhuga þrátt fyrir að vera óborganlegt borgarbarn. Veðurspáin er góð. Vegalengdin á þennan tiltekna áfangastað í sveitinni temmilega löng. Útilega í tjaldi með Tjásu litlu og góðum hóp vina... sú stutta óskaplega spennt yfir öllu saman. Gaman!
Ókí.... Tútta fer út í geymslu. Minnir að hún hafi átt á sínum tíma einhvers konar búnað fyrir svona náttúrulegt líferni... 3ja manna tjald, svefnpoka með einföldum saum, svo og blómótt box sem heldur köldu... og hún erfði eftir foreldra sína sirka 1984 þegar sunnudagsbíltúrar á Þingvöll fóru smám saman úr móð.
Túttan sumsé stendur út í geymslu og gónir... hmm? Hvað varð um þetta dótarí allt saman? Um leið rennur upp fyrir henni að þessi búnaður sem hún átti og veitti henni svo ómælda ánægju hér á árum áður hefur líklega endað sína lífdaga fyrir löngu í einhverri brjálæðis vor-tiltektinni sem iðulega leggst á Túttuna þegar Jónsmessa nálgast. Í ofanálag var þetta dót frekar gamaldags og myndi aldrei fá að njóta vafans á tjaldstæðum landsins nútildags.
Nú eru góð ráð dýr. Já, frekar, því ekki býður fjárhagurinn upp á fjárfestingu í fellihýsi, tjaldvagni, treiler eða hvað þetta nú heitir allt saman.Túttan ákveður því að "go native" að þessu sinni. Eins og sönnum mannfræðingi sæmir. Jú, með lítið tjald, prímus og pott. Nesti í poka. Svefnpoka að láni, ullarleista og húfu á hausinn... og njóta sveitar og sólar með Bimsubarninu sem að sjálfsögðu verður pökkuð inn í flís og faðmlag... tjald og tveggja stelpna tal.
Jámm... life is good!

þriðjudagur, 22. júní 2010

Það er eitthvað við bókasöfn...

... sem Túttu finnst svo ómótstæðilegt. Eitthvað sem virkar á huglæga kerfið á þann hátt að hún dregst að svoleiðis stofnunum ef þær eru í nágrenninu.
Tútta á leið niður í miðbæ þess höfuðstaðar sem hvað lengst píndi íslenska misyndismenn hér á öldum áður. Nú eru þeir ekki lengur píndir heldur sitja á torginu góða og dásama danskt veður, danskan öl og dansk smörrebröd naturligvis. Túttan kinkar kolli til landa sinna... ved jo godt hvordan det er at være ligeglad í Danmark.
Tútta er á leið niður í Fiolestræde. Þar sem De Kongelige Bibliotek er til húsa. Hún einhvern veginn límdist við þennan tiltekna stað þegar hún var stúdína hér forðum... og á einhvern óútskýranlegan hátt dregst hún að staðnum aftur... og aftur.
Þetta er svona bókasafn sem er með sérstakri lykt. Og fornu starfsfólki. Það er algjör þögn nema þegar einhver gengur eftir köldu steingólfinu. Konur og menn með gleraugu og rykfallnar axlir. Sólarljósið að utan gerir umhverfið, veggina og gólfið, röndótt og þokukennt. Þetta er líka svona bókasafn þar sem þarf að klifra upp í stiga. Og Tútta klifrar. Veit hvar hún á að leita. Fimmta röð frá hægri... við hliðina á sósíal-þeoríu-deildinni.
Og Tútta er allt í einu komin langt upp í hillu númer níu sem er sú þriðja frá lofti. Og þarna eru þær.... í löngum röðum. Dásamlegar! Virðast einhvern vegin vera sjálflýsandi í öllu þessu bókahafi. Skera sig úr á einhvern hátt. Svo áhugaverðar og spennandi. Mannfræðin í öllum sínum fjölbreytileika og á öllum tungumálum.
Ljómandi Túttuandlitið lítur dagsins ljós þegar liðið er á síðdegið. Sólin skín enn, landarnir orðnir góðglaðir á torginu og Túttan endurnærð eftir stefnumót við góða tíma forðum og hugðarefni sem henni er alltaf nálægt.

föstudagur, 18. júní 2010

Það hlýtur að vera eitthvað með aðdráttarafl jarðar...

... sem dregur Túttuna ávallt á einn ákveðinn púnkt á jörðinni á þessum árstíma.
Þessi púnktur er staðsettur í Danskalandinu, landinu þar sem Tútta á að hluta til uppruna sinn að sækja.
Eða kannski er þetta eitthvað genatískt? Þetta aðdráttarafl sem hún finnur fyrir þegar hún sogast að þessum tiltekna púnkti. Það gæti hugsast að í blóði Túttunnar sé svona ákveðin dönsk stemmning. Ekki ólíklegt... því henni finnst hún vera örlítið á skjön við íslenska tilveru sína stundum. Auk þess hefur hún mikið dálæti á rauðköflóttum borðdúkum.
Púnkturinn sem slíkur er bæði efnislegur og huglægur. Efnislegur í þeim skilningi að hann er staðsettur á sólríkum bletti rétt fyrir utan Hovedsteðen. Í raun er hann ekki stór - bara nokkrir fermetrar. Þar vaxa ávaxtatré og kryddjurtir. Túttan býr meira að segja til rabbabaragraut, eitthvað sem er löngu komið úr móð heima á Fróni. Nágrannar heilsa og spyrja frétta frá Íslandi. Já rauðköflóttur dúkur og rabbabaragrautur með flöde, dælige naboer og Túttu finnst hún vera "heima".
Púnkturinn er einnig huglægur í þeim skilningi að á honum finnst ákveðin hugarró og samsömun. Fjarri öllu amstri og áhyggjum finnur Túttan fyrir þessu genatíska sambandi við umhverfið og andrúmsloftið. Þarf ekki annað en að vinka brosmildum nágrönnum á móti. Svoooo ligeglad!
Veit að hún er partur af þessum dásamlega danska veruleikaheim sem á þátt í tilvist hennar hér á jörðinni.

mánudagur, 14. júní 2010

Tútta mannfræðingur og útvarpskona


Túttan er frekar dösuð en jafnframt glöð þessa dagana. Búin að pródúsera tvo útvarpsþætti sem hún hefur haft mikla ánægju af að vinna. Báðir tengjast hugðarefni hennar í mastersnáminu og fjalla um þá einstöku hugmynd sem hver og einn hefur um sjálfsmynd sína út frá hugmyndum um anda og efni í ljósi samfélags okkar.
Ekki nóg með það. Sérlegur kennari og mentor Túttunnar í þessu verkefni er afar impóneraður líka.
Hvers vegna? Jú, Túttan fjallar um mál sem að öllu jöfnu hafa legið í þögn. Hún varpar fram ögrandi spurningum og vekur athygli á málum sem kannski fram til þessa hafa skoðast út frá tiltölulega þröngu og sjálfhverfu sjónarhorni. Svo líkar Túttu rólegt og huglægt tempó í útvarps-útsendingu og hefur auk þess ágæta útvarpsrödd.
Þess vegna er hún leidd að lokinni þessari vinnslu þáttanna inn á kontór dagskrárstjóra beggja rása Ríkisútvarpsins. Humm... Túttan er pínu stressuð, sveitt í lófum og með smá skjálfta í hnjánum. Dagskrárstjórinn tekur henni hins vegar afar vel og sýnir hugðarefnum radio-kanditatsins mikinn áhuga.
Spurning hvort mannfræðineminn geti hugsað sér að gera fleiri þætti í þessum dúr? Hugsanlega þáttaseríu sem fjallaði um þetta tiltekna efni sem er bæði áhugavert og kemur okkar samfélagi við? Hvort hún vilji ekki hugleiða málið, koma með hugmyndir, gera uppkast að handriti, taka viðtöl og vera svo í sambandi þegar hentar???
Það er hnarreist Tútta, full af sjálfsöryggi sem strigsar út á götu í Efstaleitinu í dag. Hún fæddist klárlega ekki þegjandi þessi stúlka fyrir 50 árum!

mánudagur, 7. júní 2010

Halló halló! Einn tveir, einn tveir!


Smá prufa í gangi... heima í eldhúsi áður en lagt er af stað í útvarpsþáttagerð. Tjásubarnið liggur vel við höggi. Saklaus og hispurslaus... prufum hérna sándið og ýmiskonar umhverfishljóð. Hún er til í það. Purrum og frussum. Syngjum og sveiflum hljóðnemanum í hringi. Makalaust fyndin tækni. Baunin fær að fikta soldið sjálf í græjunum. Tekur viðtal við mömmu. Mamma tekur viðtal við hana. Báðar skellihlægja og finnst þetta geðveikt fyndið!
Svo tekur alvaran við daginn eftir. Túttan heldur af stað... skjálfhent og stressuð. Búin að mæla sér mót við einn virtasta prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands og sérlegan leiðbeinanda Túttunnar í rannsóknarverkefni hennar. Til stendur að gera 10 mínútna innslag í þátt sem er á dagskrá Rásar 1 daglega. Tútta búin að vera í meiriháttar heilabrotum síðustu daga. Semjandi handrit, leita heimilda, fá samþykki kennara og nú flengist hún um allan bæ með hljóðnema, óttalega kúl... því hún er nebblea svo mikill pródúser og framleiðandi útvarpsþátta þessa dagana... og er bara svolítið impóneruð yfir öllu saman.
Allt gengur glimrandi vel. Viðmælandinn róar þáttagerðarmanninn og viðtalið gengur hnökralaust fyrir sig.
Síðan mætir Túttan í stúdíó. Grænt ljós kviknar hljóðveri: Nú á Tútta að tala. Já einmitt! Og hún talar. Veltir upp spurningum um líffræðilegan og félagslegan skyldleika með tilliti til hugmynda í mannfræði. Ættleiðingar, tæknifrjóvganir, sæðisgjafir, staðgöngumæður. Falleg tónlist og svo kemur fyrrgreindur prófessor og leiðbeinandi með áhugavert innslag út frá sjónarhorni félagsvísinda.
Ein klukkustund í lífi Túttu sem sannar að lífið er þess virði að njóta þess! Þrátt fyrir að einn lítill hljóðnemi valdi ótrúlegum handskjálfta!

miðvikudagur, 2. júní 2010

Í bólið með Jóni

Túttan hefur átt dásamlegar stundir með honum síðustu vikur. Þegar allt er orðið kyrrt þá hittast þau. Undir sæng seint á kvöldin. Amstur dagsins að baki... gæðastund rétt fyrir svefninn á sirka 448 blaðsíðum.
Túttan hefur svosum þekkt hann lengi. Eiginlega í mörg ár. Geymir hann upp í hillu en tekur hann fram þegar hentar af og til og hún í þess lags stuði að stúdera kappann svolítið.
Hann kemur alltaf jafnmikið á óvart í hvert skipti sem fundum þeirra ber saman. Henni finnst hann hreint út sagt ómótstæðilegur. Soldið flottur en líka óþolandi sjálfumglaður. Kjaftfor, drjúgur með sig og forhertur. Luralegur en samt soldið kúl. Lætur hvorki yfirvald né álfkonur segja sér fyrir verkum. Svartur og úfinn og skín í hvítar tennurnar. Pínulítil áhugaverð pæling með hliðsjón af lokaverkefni Túttunnar um karlmennskuímyndir í Háskólanum svo ekki sé meira sagt.
Tútta nýtur þess, undir sæng á kvöldin, að upplifa magnaða sögu þessa ómótstæðilega manns.
Á föstudaginn eiga þau svo stefnumót. Klukkan sjö púntlich hittir Túttan vin sinn til margra ára, Jón Hreggviðsson á fjölum Þjóðleikshússins og hlakkar mikið til!

þriðjudagur, 1. júní 2010

Þau standa hlið við hlið...

... við kjötborðið í Fjarðarkaup.
Þykjast fyrst ekki sjá hvort annað. Verða svo á endanum að horfast í augu við þessa óþægilegu nærveru. Kinka kolli til hvors annars eins og þau hugsanlega þekkist frá fyrri tíð. Afar ópersónuleg. Góna síðan út í loftið, óþolinmóð og vandræðaleg. Bíða eftir afgreiðslu. Hann er númer fjórtán í röðinni og hún er númer fimmtán. Hann kaupir plokkfisk og hún kaupir eitt stykki rauðsprettuflak. Bíða bæði með óþreyju eftir að dótinu sé pakkað inn í frauð og plast svo þau geti haldið sína leið og brotið upp þessa fáránlegu og óvæntu tilvist beggja í matvöruversluninni.
Þekkjast þessar brjóstumkennanlegu og vandræðalegu manneskjur eitthvað?
Jú... hann þekkir hana og hún þekkir hann.
Í fimmtán ár var hann tengdafaðir hennar. Og hún var tengdadóttir hans. Í fimmtán ár áttu þau tiltölulega ánægjuleg kynni sem þróuðust í væntumþykju og samkennd. Í fyrstu bar hún óttablandna virðingu fyrir honum og hann tók stelpunni með fyrirvara. Hann var alvörugefinn og jarðbundinn en hún var fjörbelgur sem kjaftaði helling og hló oft. Eftir því sem árin liðu varð hann, með sinni heilbrigðu hugsun, fyrirmynd hennar að samheldni, fjölskylduábyrgð og væntumþykju. Og hún varð honum, með lífsgleði sinni ákveðinn gleðigjafi í annars einsleitu lífi. Það sýndi hann henni í verki síðar meir.
Og einhvern vegin fundu þau ákveðna samkennd. Fundu að þau áttu sitthvað sameiginlegt. Áttu keimlíkan bakgrunn að mörgu leiti og þráðu bæði á vissan hátt að tilheyra. Höfðu líklega bæði upplifað ákveðna höfnun. Þess vegna var alltaf einhver þráður til staðar í þessi fimmtán ár sem hann var tengdafaðirinn og hún var tengdadóttirin.
Svo breyttist allt, skyndilega. Og þau settu hvort annað út í kuldann.
Og nú standa þau, hlið við hlið í búðinni að kaupa fisk. Fjarlæg og ókunnug. Eins og þau hafi nánast aldrei þekkst.