föstudagur, 11. júlí 2008

Fréttir af fyrirtækjarekstri

Thor

Túttuforstjórinn upplýsir hér með nýjustu fréttir af rekstrinum. Hurru! Hann gengur bara vel! Eftir smá fjárhagsútgjöld fyrstu dagana sem fólust í kaupum á hinum ýmsu nauðsynjahlutum eins og straujárni, þvottasnúrugrind og þess háttar er bara lognmolla þessa stundina. Auðvitað var við ýmsu óvæntu að búast eins og gerist og gengur þegar fyrirtæki er að komast á koppinn. Meðal annars gerði gamall bakverkur vart við sig fyrir um viku síðan. Túttan varð pínu skelfd fyrst, minnug ansi skrautlegra... og margra bakaðgerða fyrir nokkurum árum og fór strax í að analysera vandann. Jú, rúmið er frekar mjúkt... og vantar í það litla sólbrúna verðmætasjóðinn. Hjólið... jú, sætið líklega of hátt fyrir smávaxna Túttuna og áætlað að of margir kílómetrar hafi verið hjólaðir fyrstu dagana í Danska. Nú voru góð ráð dýr! Hringt var í Mr. Benny Oster. Og þar sem ekki allir vita hver hann er, þá er hann hér með kynntur til sögunnar. Benny er sérlegur bílstjóri og reddari fyrirtækisins. Hann er jafnframt leigusali Túttunnar. Benny hefur verið afar hjálplegur með hin ýmsu viðvik. Félagi hans og fylgisveinn er Thor. Sá er smávaxinn, feitur, ljúfur og loðinn og af belgískum ættum.

Eftir urgent símtal við reddarann sem hefur líka átt við bakmeiðsl að stríða og hafði fullan skilning á vandanum var Túttunni útvegaður tími hjá lækni. Og viti menn! Var sem um selebertí væri að ræða, svo vel var tekið á móti henni á klínikinu og er hún staðráðin í að eiga þessa góðu lækna að, ef á þarf að halda næsta árið. Túttan fékk töflur, krem og óskir um góðan bata hjá þessu ágæta fólki og er eins og ný manneskja í dag.

Þar sem lognmolla er yfir bæði rekstrinum, borginni og sálarlífinu eru engin stórmál í gangi. Eitt vantar þó þannig að allt fúnkeri samkvæmt skvísu-staðli. Það er stór spegill. Benný er hávaxinn maður og þar sem hann bjó í íbúðinni áður, eru allir speglar þess eðlis hér, að Túttan sér bara ennið á sér (með því að standa á tánum). Reddarinn hefur fullan skilning á þessum tiktúrum og mætir púnktlich kl. 10 í fyrramálið, sækir Túttuna og fer með henni að kaupa Top To Toe spegil. Púff! Eins gott.

Annars ætlar Túttan að gerast barnapía í kvöld á Íslandsbryggju. Foreldrar fröken Ísabellu Brekadóttur ætla út á skverinn og frænkurnar að knúsast saman á meðan.

Fyrst er samt að hjóla niðrí bæ í dag í bókabúð. Túttuna vantar eitthvað að lesa, nennir ekki skólabókunum strax... og því síður slúðurblöðunum í Seveníleven. Hver veit nema hún detti niðrá eitthvað spennandi?

Engin ummæli: