fimmtudagur, 31. júlí 2008

Sabbath.... Shaloom!

"I hope they make good friends!"
" I hope so tooooo!!!" skrækir Túttumamma um leið og hún tekur í spaðann á þessum mystíska manni og nágranna sem kominn er inn í garð til hennar. Það sem þau eiga við með þessu ávarpi hvors til annars er að dætur þeirra, Bimsa og Naomi hafa verið að mingla saman undanfarið í garðinum á Vesturbrú og virðast ætla að verða góðar vinkonur. Túttumamma er svo sem búin að sjá kappann áður... á Kristjaníuhjóli með börnin sín (svona hjól með vagni framan á, fyrir börn, gróserís og solleiðis).... sportandi um og kinkandi vinalega kolli til Túttunnar þar sem hún liggur í hundrað volta sólbaði á bleiku flísteppi að ná sér í brúnku.
Og nú eru Ron, Naomi og Adam litli kynnt til sögunnar.
Ron er frá Ísrael, kvikmyndagerðarðamaður með geis á dokjúmentarí og óstjórnlegan áhuga á norrænni sögu... einstæður faðir.... og býr á númer tólf. Naomi er átta, gullfalleg og feimin, Adam er fjögurra... með lykla- og bílaþráhyggju.
Þar sem börnin göslast um í garðinum gefst gott næði að spjalla við þennan áhugaverða mann sem hefur lifað tímana tvenna, annars vegar í stríðshrjáðu landi og hins vegar í norrænu landi sem er svo líkt fósturjörðinni ylhýru. Ekki spillir fyrir að mannfræðitúttan sótti kvikmyndahátíð á Ísafirði í vor um sjónræna mannfræði svo það skorti ekki umtalsefnið.
Svoooo gaman!... og ákveðið að grilla saman um kvöldið!
Hmm... bíðum við... Tútta stendur í eldhúsinu sínu og veit ekkert í sinn haus þar sem hún þekkir kappann ekki mikið. Er maðurinn múslimi? Á Tútta að grilla og hann að sitja og drekka bjór og chilla á meðan? Sitja svo afsíðis á meðan hann og börnin borða? Eða... er hann bókstafstrúar gyðingur... sabbath með alls konar seremóníum yfir sjöstjörnukertastjaka á föstudagskvöldi við sólarlag og tuttuguogfjögurra tíma fasta framundan?
Tútta ákveður að engir konfliktar trufli þetta grillpartý og spyr manninn hvort einhverjar arabískar versus íslenskar hindranir séu í veginum? Neibb... aldeilis ekki, grillum pulsur, kjúlla, opnum rauðvín og höldum áfram að blaðra um lífsins undur og merkilegheit. Og kvöldið var svo sannarlega áhugavert... fyrir mannfræðitúttu sem er svo áhugasöm að analísera lífsins gang og frumlegheit.
Þegar allir eru orðnir saddir, sælir og þreyttir er tímabært að kveðjast með von um að endurtaka ánægjulega samveru fljótlega.
Shaloom!

Tilviljun eða æðri máttur?



Í allri sólinni og hitanum langar Bimsu að fara á ströndina. Túttumamma er til í það og pakkar handklæðum og ýmsu nauðsynjadóti í bakpoka. Skvísurnar nenna ekki að hjóla svo þær rölta út á Gamle Kongevej og taka strætó nr 14. Hann brunar beint niðrí bæ á Nörreport station þar sem Metró-lestarnar bruna hver á fætur annarri þvers og kruss um borgina. Metró er þægilegur ferðamáti, því aldrei þarf að bíða nema mesta lagi 5 mín. eftir lest og kerfið svo flott að enga stund tekur að komast á áfangastað. Túttumamma og Tjása eru að spekúlera í þessu magnaða fólksflutningakerfi um leið og þær stíga inn í lestina... akkúrat þessa lest, inn um þessa hurð... af skriljón lestum með mörgum hurðum... sem fara um þessi spor allann sólarhringinn, allan ársins hring.

"Pabbi! Þarna er Birna bekkjarsystir mín frá Íslandi!"

??? Túttumamma og Tjásan líta báðar við ???

"Hey, mamma! Þetta er Magnús bekkjarbróðir minn úr Víðistaðaskóla!"

Og þar með er leikfélaga á ströndina reddað. Magnús hefur búið í Frederiksberg í ár ásamt foreldrum sínum og eftir "hissa-svip" og "þetta var nú fyndið"-samræður við foreldra hans voru höfð símanúmeraskipti og arkað niðrá Amagerströnd. ...og Túttumamma verður enn meira hugsi... um ferðagleði barnanna úr Víðistaðaskóla... og... eða... tilviljanir eða stjórn æðri máttar? Bimsa hitti Júlíu bekkjarsystur sína á Spáni fyrr í sumar, Elísu bekkjarsystur á leiðinni í flugvélinni hingað, og svo Magnús bekkjarbróður.

Af því Bimsa er stundum stödd... akkúrat á þessum stað, á þessum tímapunkti... í litla og unga lífinu sínu.

mánudagur, 28. júlí 2008

Þeir sumsé fiska sem róa!

Og gott betur en það!

Benný, sem seint fær leið á að stjana við dömurnar á Vesturbrú, ákvað einn góðan veðurdag að sýna þeim... borgardætrunum, hvernig sjálfbær búskapur fúnkerar. Ekki vanþörf á...nútímabörn í dag, halda að mjólk, kjöt og fiskur vaxi í stórmörkuðum og að peningar gubbist endalaust út úr hraðbönkum þegar ýtt er á ákveðna takka.

Túttan og Tjásan stóðu sig vel að mati bóndans, veiddum 44 spikfeita fiska í net, fórum í Höll Sumarlandsins sem fyrr er getið á þessu bloggi, týndum salat, kryddjurtir og tómata úr garðinum, sátum úti í sólinni, heitreyktum lúðu makríl og rækjur og drukkum dásamlegt hvítvín með.

Dingluðum svo saman í hengirúmi og ropuðum meðan ökólógíski bóndinn vaskaði upp, lagaði kaffi og bakaði eeeblekage með flöööðe.

Er ekki Danskalandið dásamlegt?

sunnudagur, 27. júlí 2008

Spakmæli frá góðum vini

Með aldrinum nálgast veraldlegur maður dauðann... en andlegur maður nálgast Guð.
-Yogi Hari

laugardagur, 26. júlí 2008

Gaman í garðinum okkar

Greinileg bongóblíða á Vesturbrú þessa dagana!

föstudagur, 25. júlí 2008

Húsið á móti



Túttan mikið búin að spá í húsið á móti. Sumsé númer 17. Sér það út um stofugluggann sinn. Greinilega hótel. En hvernig hótel? Með tilliti til allra þeirra íslendinga sem heimsækja Kaupmannahöfn í framtíðinni lætur Túttan slag standa og röltir yfir til að forvitnast. Hmm...stendur í lobbýinu og skimar í allar áttir. Maður á stuttbuxum kemur á móti henni og spyr hvort Túttan sé íslensk! Spyr á íslensku! Hann hafði sumsé séð íslenska fánann í stofuglugga Túttunnar.

Og hér með er Siggi danski kynntur til sögunnar. Siggi sem er íslendingur og starfsmaður hótelsis býður Túttu upp á kaffi í bakgarðinum, kynnir hana fyrir Jannie hótelstýru og segir henni frá starfsemi þessa hótels. Rekstur þess er í höndum Kommúnunnar og starfsfólk hótelsins eru fyrrum fíklar sem eru að stíga sín fyrstu skref út í þjóðfélagið aftur. Sjálfur er Siggi búsettur hér í borginni til margra ára. Eftir dágott kaffispjall kemur í ljós að hann er ættleitt barn eins og Tútta, jafnaldri og deilir að ýmsu leiti sameiginlegri lífsreynslu. Sigga danska er smellt inn í vinahóp Túttunnar med de samme og ákveðið að hittast fljótlega og spjalla.

Tútta skoðar hótelið, látlaus og tandurhrein herbergin, glæsilegan morgunverðarsal og skynjar vinalegt andrúmsloft í hverju horni. Hvernig má annað vera í svona frábærri uppbyggingastarfsemi?

Þegar Túttan kveður er henni tilkynnt að allir vinir hennar frá Íslandi séu sérlega velkomnir enda hótelið afar ódýrt miðað við góða staðsetningu og ekki spillir að Tútta býr beint á móti!

Túttu þætti vænt um ef vinir hennar á Íslandi myndu agitera fyrir þessu frábæra húsi hér í miðborg Kaupmannahafnar, ekki sjálfgefið að finna ódýra og góða gistingu í göngufæri við allt sem borgin hefur upp á að bjóða!

www.hotellet-vesterbro.dk.

miðvikudagur, 23. júlí 2008

Stúlkan er snillingur!


Túttumamma rétt nær að elda hakkebuff med lööög og ægg... og Tjásan barasta búin að ná sér í vinkonur... hún er sko ekki fjórði bauni fyrir ekki neitt þessi stelpa! Púff! Gaman!

föstudagur, 18. júlí 2008

fimmtudagur, 17. júlí 2008

Rótin fundin!

Systir mín!
Mannfræðistúdía gengur að hluta til út á að skoða líffræðilegan skyldleika fyrirbærisins "Homo sapiens". Skyldleiki og blóðtengsl eru manneskjunni mikilvæg vitneskja í lífinu og eðli og réttur hvers manns að vita og þekkja uppruna sinn. Við sjáum skyldleika fólks, bæði líffræðilegan og félagslegan með því að horfa á það og fylgjast með því. Það gefur okkur ákveðna vissu um að ein manneskja er fædd af annari.

Ég sótti áhugavert námskeið í HÍ í vetur sem fjallaði um mannfræði barna. Réttur barna með tilliti til barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og íslenskra barnalaga var meðal annars umfjöllunarefni námskeiðsins.

Það vakti áhuga minn um minn eigin rétt. Og mín eigin blóðtengsl. Ég... sem ættleitt barn, á rétt á að vita um uppruna minn, en þó ég hafi haft ákveðnar upplýsingar um hann var ég aldrei alveg viss. Á ættleiðingaskjölum mínum og fæðingarvottorði var ég aldrei feðruð. Hafði einungis munnlegar upplýsingar um faðerni mitt. Með sterka réttlætiskennd í farteskinu fór ég á fund lögfræðings sem leiðbendi mér um réttindi mín.

Í kjölfarið fór ég í DNA próf ásamt Magnúsi Guðmundssyni sem í dag, samkvæmt símtali frá Landspítala háskólasjúkrahúsi er líffræðilegur faðir minn!!! Og mér er mikið létt. Nú veit ég það sem ég hef ekki verið viss um í 48 ár. Ég veit líka að ég á þrjár hálfsystur í Svíðþjóð sem við Bimsa ætlum að heimsækja í ágúst!

Ég er svo glöð! Er þetta ekki frábært?

mánudagur, 14. júlí 2008

Nu vil jeg snakke dansk!

Höll sumarlandsins

Túttan komst að því um helgina að hún er ekki eins sleip í dönsku og hún hélt. Það kom í ljós þegar henni var boðið í sumarhús bílstjórans og reddarans. Kappinn á þetta líka fallega sumarhús í Rödovre og nefndi við Túttuna í síðustu viku að ef hún hefði áhuga, þá skyldi hann glaður sækja hana til borgarinnar, sýna henni höllina sína í sveitinni og elda handa henni góðan mat. Jú Túttan var nú nokkuð spennt að kynnast danskri sveita- og sumarbústaðamenningu og sló til. Reyndist þessi sunnudagur hinn ánægjulegasti enda hefur Túttan komist að því að ekkert er að óttast í návist þessa ágæta manns. Eftir mjög svo glæsilega máltíð sem bílstjórinn reiddi fram á augabragði var Túttan kynnt fyrir nábúum sem komu í hópum að skoða þessa íslensku stúdínu sem nú skyldi búa í íbúðinni á Vesturbrú í vetur. Og þá kom í ljós að dönskukunnátta hennar var ekki ekki eins góð og hún hélt. Danskurinn er svo mikið að hugge sig alltaf, þeir sitja og spjalla tímunum saman, drekka öl og njóta góðs félagsskapar. Og til að Túttan geti nú verið viðræðuhæf næsta árið komst hún að því að dönsk orðabók er algjört must og efst á þarfalistanum núna.

En Túttan er blönk námsmey og orðabækur eru dýrar. Þess vegna lýsir hún hér með eftir einni slíkri til láns, sem hugsanlega er ekki í notkun hjá lesendum þessa bloggs. Má vera íslensk-dönsk, dönsk-íslensk, dönsk-dönsk.

Þar sem Túttan mun heiðra fósturjörðina með nærveru sinni um næstu helgi, verður opinber móttaka á dönskum orðabókum til láns að Tröllaborgum 25, annari hæð hjá Titti Dúllara vini mínum. Og að sjálfsögðu lofar Tútta að fara vel með!

föstudagur, 11. júlí 2008

Fréttir af fyrirtækjarekstri

Thor

Túttuforstjórinn upplýsir hér með nýjustu fréttir af rekstrinum. Hurru! Hann gengur bara vel! Eftir smá fjárhagsútgjöld fyrstu dagana sem fólust í kaupum á hinum ýmsu nauðsynjahlutum eins og straujárni, þvottasnúrugrind og þess háttar er bara lognmolla þessa stundina. Auðvitað var við ýmsu óvæntu að búast eins og gerist og gengur þegar fyrirtæki er að komast á koppinn. Meðal annars gerði gamall bakverkur vart við sig fyrir um viku síðan. Túttan varð pínu skelfd fyrst, minnug ansi skrautlegra... og margra bakaðgerða fyrir nokkurum árum og fór strax í að analysera vandann. Jú, rúmið er frekar mjúkt... og vantar í það litla sólbrúna verðmætasjóðinn. Hjólið... jú, sætið líklega of hátt fyrir smávaxna Túttuna og áætlað að of margir kílómetrar hafi verið hjólaðir fyrstu dagana í Danska. Nú voru góð ráð dýr! Hringt var í Mr. Benny Oster. Og þar sem ekki allir vita hver hann er, þá er hann hér með kynntur til sögunnar. Benny er sérlegur bílstjóri og reddari fyrirtækisins. Hann er jafnframt leigusali Túttunnar. Benny hefur verið afar hjálplegur með hin ýmsu viðvik. Félagi hans og fylgisveinn er Thor. Sá er smávaxinn, feitur, ljúfur og loðinn og af belgískum ættum.

Eftir urgent símtal við reddarann sem hefur líka átt við bakmeiðsl að stríða og hafði fullan skilning á vandanum var Túttunni útvegaður tími hjá lækni. Og viti menn! Var sem um selebertí væri að ræða, svo vel var tekið á móti henni á klínikinu og er hún staðráðin í að eiga þessa góðu lækna að, ef á þarf að halda næsta árið. Túttan fékk töflur, krem og óskir um góðan bata hjá þessu ágæta fólki og er eins og ný manneskja í dag.

Þar sem lognmolla er yfir bæði rekstrinum, borginni og sálarlífinu eru engin stórmál í gangi. Eitt vantar þó þannig að allt fúnkeri samkvæmt skvísu-staðli. Það er stór spegill. Benný er hávaxinn maður og þar sem hann bjó í íbúðinni áður, eru allir speglar þess eðlis hér, að Túttan sér bara ennið á sér (með því að standa á tánum). Reddarinn hefur fullan skilning á þessum tiktúrum og mætir púnktlich kl. 10 í fyrramálið, sækir Túttuna og fer með henni að kaupa Top To Toe spegil. Púff! Eins gott.

Annars ætlar Túttan að gerast barnapía í kvöld á Íslandsbryggju. Foreldrar fröken Ísabellu Brekadóttur ætla út á skverinn og frænkurnar að knúsast saman á meðan.

Fyrst er samt að hjóla niðrí bæ í dag í bókabúð. Túttuna vantar eitthvað að lesa, nennir ekki skólabókunum strax... og því síður slúðurblöðunum í Seveníleven. Hver veit nema hún detti niðrá eitthvað spennandi?

þriðjudagur, 8. júlí 2008

Skutlur hjóla!

Hjóladívurnar Tútta, Títla, Dídí og Tjása í skvísupartýi í sumar

Dojjj... ég upplifði nostalgíu við að horfa á Ísland í dag á vef-tíví! Skutlurnar að leggja upp í hringferð um landið á morgun!Þetta var frábær umfjöllun hjá Stöð2 um jákvæða hjólamennsku og flottar konur í heilbrigðu sporti.

Leiddi hugan um leið að Akureyrarferð minni í síðasta mánuði... hmm.... lagði af stað með bjartsýnina eina í farteskinu... kom heim með troðfullan farangur af reynslu.

Þannig er nú þetta líf. Og það væri fátækleg ferð ef við kæmum tómhent á áfangastað. Ég held að öll lífsreynsla sé kærkomin, hversu góð, hversu vond... geri líf okkar litríkara.

Vona að dvöl mín hér verði á þann hátt.

Óska öllum hjólaskutlum, skvísum og dívum velfarnaðar í hverri ferð sem þær taka sér fyrir hendur í lífinu!

Skál stelpur og góða ferð!!!

laugardagur, 5. júlí 2008

Gjöful jörð.


Er stundum að spá í hversu gjöful þessi jarðkúla okkar er. Ég nýt þess að fara í matvörubúðir og á markaði, og skoða allt úrvalið sem í boði er. Kjöt, fiskur, brauð, ostar, ávextir og grænmeti... ég fyllist stundum valkvíða þegar ég horfi á úrvalið. Um leið er stór hluti heimsins án allra þessa allsnægta. Gæðum er misskipt og við sem búum hér í vestrænum heimi höfum það stundum of gott.

Myndin er af Jöru Mjöll frænku minni sem kom í matarboð til mín í gærkvöldi. Hún lék sér í garðinum ásamt Ísabellu frænku sinni og týndi epli sem höfðu fallið á jörðina. Á meðan sátum við mágkonurnar og Agga og nutum góðs matar, víns og yndislegs veðurs.

Já, við erum lánsöm við vesturlandabúar.

fimmtudagur, 3. júlí 2008

Nýja heimilið.

Það var líf og fjör í garðinum okkar í dag. Hitinn var 25+ og börn og foreldra nutu lífsins. Hlakka til að fá Bimsu mína til mín og njóta augnabliksins með henni.

Stofan mín í morgunsólinni.

Fyrstu matargestirnir mínir!
Gúrý, Jónas Breki, Ísabella og Agga. Yndisleg kvöldstund.


Morgunsól.



Hér á eftir að malla mikið á næstu mánuðum!




Gæti ekki verið huggulegra á Vesturbrú.


Hef verið í veseni með net-tengingu en fæ tæknilega aðstoð með hana í næstu viku er mér sagt af leigusalanum mínum. Skelli hér með inn nokkrum myndum af umhverfinu sem ég hef fyrir augum dags daglega... svona til að leyfa öðrum að njóta með mér.

Hef það mjög gott hérna. Hjóla allra minna ferða, búin að skoða háskólasvæðið. Gvöh!! þvílík andans upplifun að labba þar inn! Eitthvað svona mýstískt við þetta allt saman. Hlakka mikið til!

Já... held þetta skiptinám hafi verið snilldar ákvörðun hjá mér!







þriðjudagur, 1. júlí 2008

Útrás í Danska


Ég er vöknuð tiltölulega snemma þennan fyrsta morgun minn í íbúðinni á Vesturbrú. Ég dríf mig framúr því ég þarf að mæta á stjórnarfund. Ég er nefnilega að stofna fyrirtæki. Þetta fyrirtæki er svosem ekkert nýtt, það er reist á grunni annars fyrirtækis sem ég stofnaði heima á Íslandi fyrir rúmum tveimur árum eftir erfiðan og sáran hjónaskilnað. Við mæðgur vorum settar svolítið til hliðar af íbúum sunnan lækjar í Hafnarfirði og því var ekkert annað í stöðunni en að reyna að halda einhvernvegin áfram. Þá var sumsé þetta fyrirtæki stofnað. Reyndar hefur rekstur þess gengið ágætlega þegar á heildina er litið... hefur bæði átt góð og ekki góð tímabil.
Þetta fyrirtæki sem ég er að stofna núna er reyndar ekkert frábrugðið því gamla, nema í þetta sinn er ég í útrás í danska landinu eins og svo margir aðrir stórhuga íslendingar.
Hmm... fundur er settur um leið og ég sest niður með kaffibollann. Alveg eins og í gamla fyrirtækinu er ég einróma kosin stjórnarformaður, forstjóri, gjaldkeri, ritari og og er eini aðilinn með atkvæða-og kosningarétt. Ég er einnig kosin bankastjóri í Sjálfsmínsbanka. Verðmætasjóður fyrirtækisins er 8 ára hnáta sem nýtur samveru við föður sinn niður við Miðjarðarhaf í augnablikinu. Hnátan er jafnframt áheyrnarfulltrúi fyrirtækisins og kemur til með að hafa tillögurétt en annars ríkir hér einræði. Stefna og markmið fyrirtækisins er sú sama hér eftir sem hingað til: að lifa, læra og njóta.
Ég er bjartsýn og er viss um að þessi rekstur minn eigi eftir að ganga vel. Ég er nefnilega þannig gerð að ég er oft sterkust þegar ég er veikust. Ég held að það sé góður eiginleiki í fyrirtækjarekstri.
Starfsáætlun þessa kompanís er þar með samþykkt einróma um leið og skálað er í kaffi móti sólinni sem skín inn um opinn stofugluggan.
Við Hnátan mín brosum til hvor annarar í huganum þennan fyrsta starfsdag á Vesturbrú og höfum heitið því að standa saman að þessum rekstri.Við erum jú sjálfstæðar konur báðar tvær, duglegar og sterkar.
Stjórnarfundi er slitið í skyndi, ég byrja strax að lifa,læra og njóta.... og ákveðin í að staða fyrirtækisins verði tekin út að ári.
Fréttir af rekstri fyrirtækisins munu birtast á næstu mánuðum!