fimmtudagur, 30. september 2010

Einn tveir þrír... -Sæl ég heiti Gísli...

... fimm sex sjö. Einn tveir þrír - fimm sex sjö.
Þetta ávarp mannsins sem telur taktfast um leið og hann tekur í spaðann á Túttu er til komið vegna þess að þau standa á móti hvort öðru á nýlögðu parketgólfi í einum sérhæfðum dansskóla hér í bæ. Þau eru sumsé pöruð saman í dansi örstutta stund samkvæmt fyrirmælum kennarans sem stjórnar með glæsibrag hópi fólks á þessu tiltekna parketgólfi. Allt þetta fólk er nefnilega samankomið hér til að læra Salsa.
-Einn tveir þrír... sæll! segir Túttan á móti og kynnir sig fyrir Gísla en passar jafnframt upp á að telja taktfast sjálf, til að búkurinn og síðast en ekki síst fæturnir missi nú ekki ryþman sem hún er að reyna að halda við þessar krefjandi en jafnframt seiðandi aðstæður. Einnig fylgist hún laumulega með sjálfri sér í stórum spegli á veggnum svona til að tékka á hvort lúkkið, flörtið og fasið sé ekki örugglega í lagi. Slíkt verður sérdeilis að vera í toppstandi í kvöld - af gefnu tilefni. Nú róterar kennarinn hópnum upp á nýtt svo allir prófi nú nýjan dansfélaga. Og Tútta kveður Gísla sem snarar sér að næstu dans-dömu með tilheyrandi einn tveir þrír ávarpi á meðan Tútta skimar einbeitt yfir dansgólfið. Og hún veitir athygli einni vel straujaðri skyrtu á einum mjög sætum manni út í sal. Fær í leiðinni pínu skjálfta í hnéskeljarnar.
Tútta er sem sagt komin á Salsa-námskeið næstu fimm vikur. Eftir mjaðmasveiflur sumarsins og nokkra prufutíma í listgreininni ákvað hún að skella sér á eitt slíkt námskeið. Og ekki nóg með það, heldur mætir hún með dansfélaga með sér - af albestu sort.
Túttu finnst hann sætur og skyrtan hans er sérlega smart - og vel straujuð. Túttan er þess vegna bara drjúg með sig og borubrött í þessum fyrsta Salsatíma því bæði hafa þau tjúttað aðeins saman áður. Þau eru nokkuð klár á mjaðmasveiflum hvors annars og Tútta telur sig því tiltölulega örugga í dansinum við hann. Hún lifir sig inn í sveifluna og er ekki að hafa miklar áhyggjur af sporatalningunni í þetta sinn. En hugsanlega er hún pínulítið að ofmeta Salsa-kunnáttu sína og tilheyrandi hæfni , því þegar dansfélaginn, þessi sæti í straujuðu skyrtunni, tekur upp á því að klípa nett í rassinn á henni í einni sveiflunni þá fipast henni all hrapalega. Hún missir taktinn, fylgir ekki tónlistinni, horfir flöktandi og ráðvilltu augnaráði til beggja hliða, horfir með undrun niður á lappirnar sem ekki vilja hlýða, lítur svo að lokum vandræðaleg á dansfélagann sem skælbrosir og skemmtir sér klárlega vel yfir uppátækinu! Hann "botnaði" mómentið sumsé algjörlega með stæl!
Eh!... uh.! Þrátt fyrir að Tútta missi niður glæsilegt Salsa-appearansið eitt augnablik þá getur hún ekki annað en skælbrosað á móti.
Því henni finnst þetta eitthvað svo voðalega sætt og skemmtilegt allt saman!

föstudagur, 10. september 2010

Barn? Fullorðin?... eða eitthvað þar á milli.

Hún er nývöknuð. Ellefu ára afmælisdagurinn runnin upp og barnið sem að öllu jöfnu er ómögulegt að vekja á morgnanna nema með alls konar tilþrifum, þolinmæði og þar til gerðum plönum er nú glaðvakandi fyrir klukkan sjö. Vissi að biði pakki frá Túttumömmu og dásemdar morgunverður. Og hún er bæði glöð og spennt. En staða Bimsubarnsins er nokkuð óljós um þessar mundir. Hún er nefnilega ekki viss hvort hún barn, á leiðinni að fullorðnast eða eitthvað þar á milli.
Hún velur sér fötin í skólann í dag af mikilli kostgæfni. Skiptir þrisvar áður en klukkan verður átta. Pils eða gallabuxur? Fín í tilefni dagsins? Kasjúal eða kúl? Hárspöng eða tagl? Slétt kannski? Ætlar að endurskoða stöðuna að loknum skóla og áður en bekkjarsystur mæta í partý síðdegis. Kyssir Túttumömmu bless og tekur loforð af henni að vera nú ekki mikið áberandi í fyrrgreindu partýi. Túttumamma á sumsé hvorki að reyna að vera fyndin fyrir afmælisgesti né að láta gestrisni stíga sér til höfuðs.
Gott mál og afgreitt á staðnum.



Klukkan fjögur púntlich mætir á svæðið búnki af hnátum sem eru einnig ellefu ára - og Túttumömmu er ljóst að þær glíma við sama konsept og Bimsubarnið. Eru ekki alveg vissar hvort þær séu börn, fullorðnar eða eitthvað þar á milli. Á milli þess sem þær leika sér, dansa og flissa, fara í spurningaleiki og hlutverkaleiki vindur sér ein hnátan að Túttumömmu:

-Mikið óskaplega eru þetta góðar pizzur hjá þér! segir hún kotroskin. Túttumamma þakkar komplimentið og er ekki alveg viss um hvurnin hún eigi að taka því, hafandi verslað guðdóminn í Bónus fyrr um daginn. Stuttu síðar kemur önnur hnáta inn í eldhús þar sem Túttumamma heldur sig til hlés. -Óskaplega er þetta fallegt heimili sem þið eigið! Ég er einmitt svo hrifin af svona nútímahönnun! Allt svo stílhreint og fallegt! Nú er Túttumamma orðlaus. Hún kíkir ofurvarlega inn í stofu. Á þennan búnka af ellefu ára hnátum sem einmitt núna eru í "Frosin!" leik. Og hún er forvitin um hversu líf og þroski manneskjunnar er fjölbreyttur. Að vera barn og fullorðin í sömu andrá hlýtur að vera afar krefjandi djobb. En örugglega skemmtilegt og ögrandi.

Ánægjulegum afmælisdegi Bimsubarnsins lýkur með bíóferð. Aðal-mennirnir í lífinu eru mættir á svæðið. Bræðurnir sem hún dýrkar og dáir kippa ellefu ára Bimsuskvísunni (sem enn og aftur hefur haft fataskipti) upp í bíl og bruna af stað. Búin að kyssa Túttumömmu bless og þakka henni fyrir ánægjulegan dag og ekki síst fyrir ósýnileikann í boðinu.

Túttumamma situr heima, dösuð og lygnir aftur augunum. Huxar.

Huxar um hversu yndislegt það hljóti að vera... að vera ellefu ára. Vera barn stundum. Og stundum ekki. Fá heillaóskir, gesti og gjafir. Fá líka símtal úr Suðurbænum. Símtal sem Túttumamma lagði inn pöntun fyrir... fyrir um ári síðan.

Jámm... Ellefu ára og dásamlega hamingjusöm!

miðvikudagur, 8. september 2010

Að finna kjarnan í sjálfum sér...


... er eiginleiki sem oft er vanmetinn og vandfundinn. Eiginleiki sem Túttu finnst óskaplega gott að upplifa þegar hún gefur sér tíma frá dagsins amstri. Snýr ímyndaðri hnattstöðu jarðar, veruleika, og síðast en ekki síst tilfinningalífi að sjálfri sér. Þetta er svona móment þegar maður nær að kúpla sig út úr efnisheiminum og inn í heim sjálfsins, sinnar eigin verundar og tilfinninga. Svipað og þegar Túttan fær sér sundsprett á morgnanna. Finnur vatnið umlykja kroppinn, finnur alla vöðva líkamans hreyfast í takt við vatnið og vatnið hreyfast í takt við líkamann. Og það er góð tilfinning. Slík upplifun veitir möguleika á naflaskoðun, sjálfsgagnrýni og hugarró. Allt saman element sem eru hluti af sjálfsmynd, birtingarmynd og veruleikaheim. Dásamleg tilfinning. Að finna sig sjálfan í sjálfum sér. Að finna vissa gersemi. Að vera sín eigin gersemi.
Þetta er líklega í ætt við jóga. Sem Tútta hefur stundað í mörg ár, bæði markvisst og ómeðvitað. Nái maður tengingu - er hún ávallt til staðar.
Eitthvað hefur gerst líka í sumar sem leið. Eitthvað frábært sem Túttan getur ekki útskýrt. Byrjaði einhvern tíma í vor og hún skynjaði í raun ekki fyrr en fyrir stuttu síðan. Eitthvað ótrúlega gott. Einhver ný sýn tekin við. Einhver kraftur kominn - og eitthvað farg er farið. Og það er mikill léttir. Góð tilfinning. Góð samvera með sjálfinu. Og Tútta hefur huxað sér að vera áfram í þessari ljúfu samveru. Þrátt fyrir áföll, vonbrigði og sorgir lífsins - sem eru mannskepnunni óumflýjanlegar og eflaust alltaf til staðar, er dásamlegt að finna kjarnann í sjálfum sér.
Því þar er maður einhvern veginn alltaf sannur.
(Já einmitt! Túttan er óvenju djúp núna!)

laugardagur, 4. september 2010

Vá! Rosalega eru þið líkar!!!...

... segir alls ókunnugur afgreiðslumaður í ónafngreindri verslun við Túttumömmu og Tjásubarnið einn síðdegiseftirmiðdag í liðinni viku.
Það er svosum ekkert óalgengt að fólk sjái svip með líffræðilega skyldum einstaklingum en þetta komment afgreiðlsumannsins hefur í för með sér skringilega tilfinningu hjá Túttu. Á meðan hún skælbrosir og segir eins og bjáni: Eh! Já! Finnst þér það?!!! fer um hana sælutilfinning sem er bæði ljúf en einnig svolítið framandi. Framandi vegna þess að Túttu finnast líffræðileg tengsl, genatísk arfleið frá einum einstaklingi til annars, frá foreldri til afkvæmis alveg óskaplega merkilegt fyrirbæri. Sælutilfinning vegna þess að hún fær staðfestingu á líffræðilegri arfleið sinni sem henni finnst nánast guðdómleg staðreynd. Er þess vegna makalaust impóneruð yfir að einhver ókunnugur aðili út í bæ sér, að líkur sækir líkan heim. En hvers vegna þessi skrítna tilfinning?
Hugsanlega vegna þess að Túttan er sjálf hálfgert eyland í erfðafræðilegum skilningi. Ættleidd á þartilgerðum pappírum og foreldralaus manneskja í Íslendingabók. Tengist hvorki manni né mús. Upplifir sig sem einhvers konar pottablóm með rætur í tilbúnum jarðvegi, fjarri þeim upprunalega og náttúrulega. Eða, félagslegt "statement" sem á að uppfylla ákveðin skilyrði um hefðbundnar væntingar samfélagsins? Barnleysi hjóna og hefðbundið fjölskyldumynstur?
Eina líffræðilega tengingin sem Tútta á, og brosir breitt yfir, eru afkvæmin þrjú sem hún hefur fætt í þennan heim. Þrjú börn, tvær fæðingar. Og hún vanmetur þá tengingu svo sannarlega ekki. Dásamlegri gjöf er vart hægt að hugsa sér. Strákarnir hávaxnir og glæsilegir eins og föðurættin, tjásubarnið lík mömmu sinni á allan mögulegan og ómögulegan hátt. Stórmerkilegt fyrirbæri að mati Túttunnar sem iðulega tekur mannfræðipólinn í þankagang sem þennan.
Nokkuð sérkennilegur þankagangur um líffræðileg tengsl Túttunnar. Allt í kring, fyrir utan, er ókunnugt, lokað, dularfullt, ósagt - sem leiðir hugann að annars konar skrítinni tilfinningu. Tilfinningu sem gerði vart við sig í sömu viku og Túttan skælbrosti til afgreiðslumannsins með aulasvip, gleði og furðu!
Tútta situr í eldhúsinu sínu og heyrir að inn um bréfalúguna berst póstur. Og þar sem hún stendur í forstofunni kemur þessi skrítna tilfinning aftur. Allt í einu heldur Túttan á blaði. Svona prógrammi sem úthlutað er kirkjugestum við jarðarfarir. Með mynd af hinum látna, nafni, dánardægri og útfarar-ritúali. Og hún sér að þetta er náskyldur líffræðilegur ættingi, föðurbróðir, sem nýlega er látinn. Búið að jarða. Þau hittust fyrir margt löngu - hann fylgdist með henni úr fjarlægð... af því hún var dóttir bróður hans. Og það var gott.
Einhver sem veit af þessum líffræðilega skyldleika við Túttuna hefur lætt þessu prógrammi inn um bréfalúguna. Gerir ekki vart við sig. Keyrir í burtu. Og Túttan stendur í forstofunni, pínulítið hissa, ringluð og döpur. Horfir á myndina af föðurbróðurnum sem hún aldrei fékk að kynnast. Hefði viljað vera við útförina þrátt fyrir að þekkja hann nánast ekki neitt. Hefði viljað vita hver það var sem læddist að bréfalúgunni og fór svo í burtu án þess að gera vart við sig. Túttu langaði að sjá, snerta, spyrja. Fá að vera með. Það er ekki hægt.
En það er hægt að gleðjast óendanlega mikið þegar ókunnugur einstaklingur segir við Túttu og Tjásu í ísbúð: Vá! Rosalega eru þið líkar!!!

þriðjudagur, 24. ágúst 2010

Stundin er runnin upp...


... þessi stund sem Tútta er búin að reyna að höndla síðustu daga og undirbúa bæði andlega og líkamlega.
Undirbúa andlega með ýmiskonar íhugun, gefandi jógahugleiðingum og huglægri atferlismeðferð sem felst meðal annars í að snúa neikvæðum hugsunum í jákvæðar.
Líkamlegi undirbúningurinn hefur aftur á móti falist í öndunaræfingum, í gegnum munn annars vegar og nef hins vegar, ásamt því að hafa stjórn á vissum hálsvöðvum og öðrum líffærum sem liggja annað hvort fyrir ofan eða neðan vélinda í skjálfandi kroppi Túttu.
En hvers vegna svona óskaplegur undirbúningur? Og hvers vegna er svona nauðsynlegt að hafa allt á hreinu fyrir tiltekinn dag í vikunni? Jú... Tútta á tíma hjá tannlækni. Þriðjudaginn 24. ágúst 2010 kl. 13 púnktlich eftir hádegi er hún sest í stólinn. Þennan stól sem hægt er að fjarstýra, upp og niður, út og suður, á þann hátt að varnarlaus manneskja upplifir sig algjörlega berskjaldaða. Með sérvíettubleðil um hálsinn og snyrtilega klínku sem horfir með móðurlegri meðaumkun á fyrirbærið í stólnum tekur nú Tútta þeim örlögum og öndunarörðuleikum sem koma skulu næsta hálftímann.
Tútta horfir upp í loft. Spáir í hvort ekki hefði mátt mála loftið betur á þessari tannlæknastofu? - svona bara rétt til að dreifa huganum og nýta sér fyrrgreinda atferlismeðferð. Pírir augun því þessi skæri lampi sem er rétt fyrir ofan ennið á henni virkar eins og hundrað volta ljósapera, aflitar meira að segja hárið í þessu hvíta og sótthreinsaða umhverfi. Líklega er best að hafa augun lokuð.
Og nú er hann kominn. Þessi maður sem er ekkert nema stór rannsakandi augun. Með hvítt léreft strekkt yfir vitin þannig að geta verður í eyðurnar hvurnin hann lítur í raun út. En það er ekki hann sem Túttan hræðist. Heldur ekki deyfingin, borinn, hljóðin, kroppið með oddhvassri tönginni eða lyktin. Það er hugsunin um að geta ekki andað. Að ná ekki andanum í heilan hálftíma er hugsun sem skelfir Túttu. Hún hefur nefnilega aldrei, frá blautu barnsbeini, með reglulegum heimsóknum fram á fullorðinsár til svona manns getað ákveðið hvort hún eigi að anda í gegnum nefið eða munninn á meðan hann fer fimlegum höndum og tækjum um trantinn á Túttu. Að iðka samhæfða öndun með allskonar tól og tæki í munni - og sítalandi tannlækni tvo sentimetra frá vitunum er nefnilega ekki auðveld né eftirsóknarverð lífsreynsla. Slík lífsreynsla orsakar þess vegna ákveðið líkamlegt rugl á annars reglubundnu systemi sem fúnkerar ágætlega við normal aðstæður. Ruglið felst í of mikilli munnvatnsframleiðslu fyrir það fyrsta. Og ótímabærum kyngingum, kítli í hálsi, hósti og purri alla leið niður í þind. Í efri hluta líffærakerfisins verður einnig ákveðin ósamhæfing. Nefið verður einhvern vegin stíflað en samt mjög móttækilegt fyrir vökva sem rennur ljúflega bæði til hliðar og rangsælis. Meira að segja tárapokarnir gerast ofvirkir og sjá til þess að farðinn sem settur var upp fyrr um morgunin þurrkast nú í hvítu sérvíettuna.
Tútta upplifir árvissa skelfingu. Munnvatn sem rennur upp í móti, nefrennsli sem rennur...tja... Tútta veit hreinlega ekki hvert, ógleði, uppþembu og stöðugar kyngingar þannig að hálsinn hamast eins og öflug togaravél í íslenskum ólgusjó.
Loksins kemst Tútta heim. Deyfð og dofin, skökk og skæld. Andlitið frekar ó-symmetrískt. Fær sér kaffi. Hittir ekki á munninn. Eða, munnurinn hittir ekki á kaffið. Slefar. Slefar meira. Tungan sem er eins og ofvaxið líffæri, vinstri kjálkinn og hluti af eyranu tilheyra einhverju öðru sólkerfi næsta klukkutímann. Slefar meira - og forðast að tala... ðvi enjin munði þkyljjja hvúaað hún ðegðgi....
Ðakkar ðínum ðæla fyðið að ár eð í næðstu heimðókn til tannþa.

laugardagur, 14. ágúst 2010

"Að dansa" er ekki það sama og "að dansa"...


... því hefur Túttan kynnst á þessu sólríka sumri sem nú er að líða.
Túttu finnst nefnilega gaman að dansa og hefur stöku sinnum farið út með vinkonum sínum þegar sumarnóttin hefur verið sem björtust og mannlífið svo óskaplega glatt og brosandi. Og stundum hefur henni verið boðið upp í dans af herramönnum. Þegar Tútta rifjar upp dansmóment sumarsins er henni hugsað til misjafnrar tækni og nálgunar sem dansherrar nota þegar þeir spotta út sæta stelpu og bjóða upp í dans. Og jafnframt hugsar hún út frá kynjafræðilegum perspektívum hvers vegna sumt virkar og sumt ekki þegar karlmaður, annars vegar, og kvenmaður hins vegar eiga í hlut.
Dæmi 1: (Á tilteknum skemmtistað í hundrað og einum).
-Mábjóðaéríglas? ropar hann framan í Túttuna þar sem hún situr ásamt vinkonum.
- Nei takk, svarar Tútta og finnst vodka+kók lyktin af honum vond. -Ókei segir hann og skekur sér í sætinu... hann vill nú samt spjalla við dömuna. -Ég fer í ræktina sex sinnum í viku segir hann og hnykklar upphandleggsvöðvana. -Jæja, er það já? Gott fyrir þig, svarar Tútta. Hann er í skyrtu sem hneppt er niður á miðja bringu. Mjööög tanaður og líklega búinn að láta hvítta í sér tennurnar. Hann upplýsir Túttuna einnig hversu rooosalega vel honum vegni í lífinu, allt sé bara æææðislegt og frááábært og geeeðveikislega skemmtilegt!
-Já er það? Tútta hefur engan sérstakan áhuga á þessu ótrúlega frábæra lífi mannsins en lætur til leiðast og jánkar þegar hann ropar aftur: Koddadansa!! Og Túttan er komin út á dansgólf ásamt herranum. Fín tónlist og fullt af glöðu fólki. Skyndilega finnst Túttu hún vera í fyndinni bíómynd: Herrann hristir sig og skekur, sperrir tanaðan brjóstkassann og gónir stíft á kvenfólkið sem er að dansa í kringum hann. Tútta reynir að ná athygli mannsins því hún hélt að þau væru að dansa saman?! Það reynist erfitt. Hann bara er í trufluðum og taktföstum búkhreyfingum um allt dansgólf, augljóslega mjög meðvitaður um sjálfan sig. Túttan, sem er alls ekki feminísk þessa stundina og kærir sig ekki um að vera eitthvað sjálfstætt og óháð fyrirbæri þarna á miðju dansgólfinu lætur sig hverfa. Og dansherrann tekur ekki einu sinni eftir því, enda farinn að sprikla og hnykkla vöðvana fyrir framan allt aðra konu!
Dæmi 2: (Nokkrum vikum seinna og gerist á sama stað við svipaðar aðstæður).
-Má bjóða þér að dansa? er hvíslað í eyra Túttu og komið ofurlaust við öxlina þar sem hún situr með vinkonum. -Nei takk! svarar Tútta snögg, minnug dansreynslunnar fyrir nokkrum vikum. Hún lítur jafnframt á þennan hæverska mann sem snertir öxlina svona ofurblítt. -Eða... Jú takk! segir hún og skiptir um skoðun á sekúndubroti. Það er nefnilega eitthvað í einlægu fari hans sem er eitthvað svo ómótstæðilegt. Augnráðið, snertingin, hvíslið og ekki síst, látlaust fasið. Og þau dansa. Eru í raun bara tvö ein á dansgólfinu þrátt fyrir alla mannmergðina. Þannig upplifir Tútta alla vega þessa heillandi stund. En hvernig má það vera? Jú, hann brosir allan tímann og horfir stöðugt í augun á Túttu. Heldur þétt utan um hana, sveiflar henni hringi og kreistir á svo seiðandi og sjarmerandi hátt. Lætur hana finna að það sé engin einasta önnur kona á dansgólfinu nema akkúrat hún. Og Tútta fer pínu hjá sér og brosir á móti. Finnur hnéskeljarnar bráðna og örlítið kitl í maganum. Finnst hann óskaplega sætur og sjarmerandi. Horfir á móti, alveg dáleidd og dolfallin.Finnur líka að öll feminísk hugmyndafræði á ekki erindi inn á þetta dansgólf.
Og hann fylgir henni aftur að borðinu þar sem vinkonurnar sitja, sest hjá henni og heldur áfram að brosa og horfa... beint í augun á Túttu.
Já, "að dansa" er sko klárlega ekki það sama og "að dansa".

þriðjudagur, 27. júlí 2010

Gamall maður á eintali við guð...

... hann styður sig við krossinn á leiðinu hennar, sumpart vegna þess að hann er örlítið valtur á fótum og sumpart vegna þess að hann heldur enþá í minninguna um hana, konuna sem var honum allt og kvaddi fyrir ári síðan.
Hann fékk nefnilega símtal fyrr í dag. "Sæll pabbi minn, eigum við ekki að fá okkur bíltúr upp í kirkjugarð í góða veðrinu? Í dag er nefnilega ár síðan mamma dó".
"Ert þetta þú gullið mitt? Já... er ár í dag?" spyr hann vegna þess að minnið og tímskynið er farið að daprast.
Eftir að konan hans kvaddi hefur hann nefnilega mestmegnis setið einn. Aleinn. Á vistheimili fyrir aldraða. Gluggar stundum í blöð og bækur. Skoðar líka oft blaðaúrklippu, minningargreinina um hana. Hann fær að vísu gott atlæti á vistheimilinu en stundum er hann einmanna því fáir koma til hans. Dagarnir eru því oft lengi að líða.
En nú fer hann í bíltúr. Það liggur vel á honum því hann fer ekki oft út. Þau keyra saman, hann á jakkafötum með bindi eins og alltaf því hann er flottur og glæsilegur maður. Hefur í raun ávallt verið fremstur meðal jafningja, virtur og dáður fyrir störf sín og atgervi á sinni löngu lífsleið. En nú er hann gamall maður. Orðinn hokinn í baki og mæddur af löngu lífi. Stundum málhaltur og gleyminn. Þegar þannig er komið er gott að eiga eintal við guð.
Og þar sem hann styður sig við krossinn og jafnvel strýkur hann eins og koll á litlu barni þakkar hann almættinu fyrir allt sem lífið hefur gefið honum. Góða konu og góð börn. Hann spjallar um sitthvað sem liggur honum á hjarta við þennan vin sinn. Þó mestmegnis þau hugðarefni sem snúa að fjölskyldunni hans, hamingju, væntingum og vonum.
"Ég er svo þakklátur fyrir ykkur systkinin" segir hann að lokum við dótturina sem var svo elskuleg að gefa sér tíma til að keyra hann upp í kirkjugarð. "Við fengum ykkur eins og sólargeisla í líf okkar því við gátum ekki átt börn". "Já pabbi minn... ég veit" segir hún því hún getur í raun ekki sagt neitt annað. Hún horfir bara á þennan gamla mann sem styður sig við krossinn á leiðinu. Pabba sinn sem nú er orðinn eins og barnið hennar.
Og hann heldur áfram að strjúka krossinn, fer um hann mjúkum höndum og spjallar við vin sinn guð, sem hefur alltaf verið til staðar í lífi hans. Vin sem hann þráir að komast til sjálfur áður en langt um líður. Því hann er þreyttur.
Vinur sem er til staðar þrátt fyrir að aðrir vinir eru farnir eða uppteknir.