Jú þú getur þetta alveg! sagði Túttumamma. Þú getur þetta vegna þess að þú ert dugleg og kjörkuð. Þú ert ótrúlega klár stelpa og allt sem klárar stelpur ætla sér, það geta þær.
Og litli engillinn hefur vaknað á hverjum morgni og tekist á við dagsins önn með þessi orð mömmu sinnar í farteskinu. Túttumamma hefur horft á eftir henni inn á nýjar skólalóðir, fyrst svolítið óörugga, hikandi... svo hélt hún áfram, alein, keik og kjörkuð. Svo ótrúlega dugleg!
Og eftir því sem tíminn leið sá Túttumamma hana eignast vinkonur og vini. Vera duglega í skólanum og koma brosandi heim með föndur og fínerí. Vera best í sundi í bekknum! Ná tökum á dönskunni og jafnvel þýða það sem Túttumamma ekki skildi! Sjá sjálfstraustið og kjarkinn aukast með hverjum deginum.
Hún hefur hjólað þvers og kruss um alla borg á litla hjólinu sínu. Sungið hástöfum svo Túttumamma viti af henni fyrir aftan sig í allri umferðinni. Hún upplifði sólríkt sumar á stuttbuxum og sandölum. Og haust með kulda og myrkri. Það hefur verið gaman en margt hefur líka verið skrítið og framandi.
Túttumamma hefur þurft að útskýra margt skringilegt fyrir henni, meðal annars hvers vegna sumar skólasystur hennar, vegna trúar sinnar, bera slæður um höfuðið. Hvers vegna þær fara hvorki í sund né leikfimi eins og hún þarf að gera. Og Túttumamma útskýrir líka hvers vegna henni er fylgt í og úr skóla á hverjum degi. Börn eru ekki ein á ferli hér eins og heima.
Og svo hefur henni þótt svo gaman að fá heimsóknir frá Íslandi. Og hún hefur grátið þegar hún hefur þurft að kveðja. Hún hefur glaðst yfir símtölum að heiman. Brunað eins og píla að símtólinu í hvert sinn sem síminn hefur hringt.
Hún hefur ferðast alein fram og tilbaka yfir Atlantshafið með bangsana sína í fanginu. Svo ótrúlega dugleg þessi litla rós.
Og nú er hún á heimleið. Enn og aftur með bangsana sína í kjöltunni. Inn í enn eitt ævintýrið.
Búin að kveðja alla vini sína hér... og snökkta soldið í hálsakotið mömmu sinnar.
Aftur soldið kvíðin og óörugg...en auðvitað dugleg og kjörkuð eins og sannri Túttudóttur sæmir.
Góða ferð elsku Bimsa mín og megi góðar vættir fylga þér alltaf. Sjáumst fljótt aftur!
http://www.youtube.com/watch?v=5GbGO0LPtck&feature=related
3 ummæli:
Alltaf jafn fallegt að lesa það sem þú skrifar Gulla mín!
Sérstaklega þegar þú ert að tala um Bimsuna!
Vona og veit að þið báðar spjarið ykkur !Og að þessi stutti tími í danaveldi verði þegar til baka verður litið góð reynsla og ljúfar mynningar!
Gangi ykkur báðum vel og hafið góðar stundir um jól og áramót ! kv.Þórey
Hugljúfur lestur.
Gangi ykkur báðum vel!
Bestu þakkir kæru vinkonur! Þetta hefur verið góður tími fyrir okkur báðar þó svo að áætlunin hafi ekki staðist.
En það gefst alltaf tækifæri til að fara aftur út í nám þegar betur stendur á. Og hver veit nema Tútta og Tjása láti reyna á fleiri ævintýr einhvern tíma í framtíðinni!
Skrifa ummæli