
Þetta var svona dagur sem kallaði á ákveðna karllæga athafnasemi sem Túttu er ekki í blóð borin. Hvorki uppeldis- né hugmyndalega séð. Tútta er nefnilega frekar íhaldsöm á viðtekin kynjahlutverk þrátt fyrir kynjafræði-stúdíu síðustu ára og femíníska hugmyndafræði upp að vissu marki. Tiltekin athafnasemi felst meðal annars í bílþvotti, sorpuferð og að slá blettinn. Fyrir utan allt sem þarf að skrúfa, bora og negla en bíður betri tíma. Þrátt fyrir að Tútta reyni að vera þessi kynlausa altmúligmanneskja og ganga í öll vel kynjagreind störf sem viðkoma húshaldi hennar eins og á dögum sem þessum þá á hún stundum erfitt með að hemja tilfinningalíf sitt undir þessum kringumstæðum. Hún kýs nefnilega frekar ákveðna viðtekna kvenlæga athafnasemi sem felst í því að hella upp á kaffi og lakka neglurnar.
Þetta fyrrgreinda tilfinningalíf umbreytir því skapferli Túttunnar á þann hátt að hún verður sérdeilis ekki aðlaðandi í skapinu. Frussar yfir lélegri bílaryksugu og ónýtum þvottakústi, fjargviðrast yfir staðsetningu nýrrar Sorpustöðvar í Hafnarfirði og rífur stólpakjaft við sláttuvél sem hefur ákveðið að fara í verkfall í dag.
Jámm... væri ekki upplagt að geyma eitt stykki karlmann niðrí geymslu? spyr Túttan sig um leið og hún lakkar neglurnar í kvöld, fær sér kaffi, dösuð eftir margslungin kynja-skilgreind hlutverk dagsins.