miðvikudagur, 26. maí 2010

Stundum koma dagar þegar bráðvantar mann


Og það gerðist einmitt í dag.
Þetta var svona dagur sem kallaði á ákveðna karllæga athafnasemi sem Túttu er ekki í blóð borin. Hvorki uppeldis- né hugmyndalega séð. Tútta er nefnilega frekar íhaldsöm á viðtekin kynjahlutverk þrátt fyrir kynjafræði-stúdíu síðustu ára og femíníska hugmyndafræði upp að vissu marki. Tiltekin athafnasemi felst meðal annars í bílþvotti, sorpuferð og að slá blettinn. Fyrir utan allt sem þarf að skrúfa, bora og negla en bíður betri tíma. Þrátt fyrir að Tútta reyni að vera þessi kynlausa altmúligmanneskja og ganga í öll vel kynjagreind störf sem viðkoma húshaldi hennar eins og á dögum sem þessum þá á hún stundum erfitt með að hemja tilfinningalíf sitt undir þessum kringumstæðum. Hún kýs nefnilega frekar ákveðna viðtekna kvenlæga athafnasemi sem felst í því að hella upp á kaffi og lakka neglurnar.
Þetta fyrrgreinda tilfinningalíf umbreytir því skapferli Túttunnar á þann hátt að hún verður sérdeilis ekki aðlaðandi í skapinu. Frussar yfir lélegri bílaryksugu og ónýtum þvottakústi, fjargviðrast yfir staðsetningu nýrrar Sorpustöðvar í Hafnarfirði og rífur stólpakjaft við sláttuvél sem hefur ákveðið að fara í verkfall í dag.
Jámm... væri ekki upplagt að geyma eitt stykki karlmann niðrí geymslu? spyr Túttan sig um leið og hún lakkar neglurnar í kvöld, fær sér kaffi, dösuð eftir margslungin kynja-skilgreind hlutverk dagsins.

fimmtudagur, 20. maí 2010

Tútta horfir með furðu á varalitinn sinn!


Skilur ekki alveg í þessu. Eitthvað svo klessulegur og útklíndur. Alls ekki líkur varaliti Túttunnar sem alltaf hefur verið nákvæmlega eins í áranna rás. Vel formaður og stílhreinn eftir mjúk en markviss handbrögð hennar um þennan lögulega og kynþokkafulla líkamspart sem varir kvenna gjarnan eru. Konur kannast við svona varaliti. Algjörlega persónuleg sköpun formsins sem endurspeglar þokkafullar hreyfingar handarinnar svo og móttækilegan flötinn sem hann svo listilega speglar yfir daginn.
Jæja hugsar Tútta og setur þennan fyrrum fallega og formaða varalit oní snyrtibudduna sína... og bara skilur þetta hreinlega ekki.
Síðdegis þegar Túttan er að setja þvott í vélina finnur hún þvottapoka. Vandlega falinn á botni körfunnar. Þessi þvottapoki var eitt sinn hvítur... en nú er hann í nokkuð annarlegu ástandi. Greinilegt er að einhver hefur verið að fela vegsummerki. Þurrkað varalit í hann, bögglað honum saman og falið vel. Augljóslega vel úthugsað plott með hátæknilegri hugmyndafræði.
Hmm.... hugsar Tútta, sterklega farin að gruna hér einn ákveðinn einstakling sem vill svo til að er 10 ára og deilir með henni húshaldi.
Tútta kíkir inn um dyragættina á yngismeyjardyngjunni þar sem hin grunaða heldur til í augnablikinu. Þarna situr hún og dundar sér með leikföngin sín. Er líka að teikna og lita blómamyndir með fiðrildum og grasi og skýjum og húsum og köttum og einum hundi. Hún syngur og hlustar jafnframt á sögu frá umferðarskólanum.
Hugsanir Túttu eru svolítið ruglingslegar þessa stundina. Er þetta barn? Eða er þetta ekki barn? Þetta er klárlega ekki fullorðin manneskja. Er þetta kannski eitthvert óútskýrt fyrirbæri sem einn daginn er svekkt yfir hversu mikil lumma hún er á skólaskemmtun á meðan bekkjarsystur mæta með brúnkukrem, maskara og gervineglur? Og hinn daginn sem hún er svo kát yfir að gösla úti með skóflu, fötu og vatn í flösku af því það er svo óendanlega gaman að sulla og drullumalla?
Svei mér þá... Túttan er ekki viss. Jafnframt lætur hún stöðu hinnar grunuðu í varalitsmálinu falla niður. Af mannúðar- og móðurástæðum.

þriðjudagur, 18. maí 2010

Fimmtug og farsæl

Nýr dagur og nú í Undralandi.
Tútta vaknaði í morgun í með aðeins öðruvísi tilfinningatempó en venjulega. Ástæðan er líklega sú að hún er degi eldri en þegar hún sofnaði í gærkvöldi. Þetta er nú svo sem ekkert ólíkt því sem hún upplifir með hverjum nýjum degi... nema þessi dagur er svolítið öðruvísi. Tútta er nefnilega að upplifa sinn fimmtugasta afmælisdag í dag. Þetta tilefni gaf henni tækifæri til að kúra aðeins lengur undir sænginni og hugsa um lífið og tilveruna. Hugsa yfir farin veg og jafnframt þann sem vonandi er væntanlegur. Hún sá fyrir sér þetta furðulega fyrirbæri, sitt eigið líf, sem liðið hefur hjá með öllum sínum litríku stundum.
Og Tútta gerist örlítið tilfinninganæm. Snýtir sér og þurkar meira að segja smá tár í sængurhornið. Ekki vegna þess að hún er sorgmædd, heldur vegna þess hversu færsæl henni finnst hún hafa verið. Hún hefur fengið að upplifa allt litróf lífsins á þessum árum frá því hún fæddist. Og fyrir það er hún þakklát. Hún er líka þakklát fyrir að lifa þennan dag í dag. Það er ekkert sjálfgefið að fólk nái þessum aldri sem Túttan er að gleðjast yfir nú. Þess vegna snýtir hún sér aftur hressilega, þurkar sitt hvort tárið og stígur framúr... og inn í þetta undraland sem lífið er.
Þessi bloggsíða var á sínum tíma smá gleðigjafi í lífi Túttunnar þegar hún dvaldi fjarri. Núna verður hún vettvangur fyrir alls kyns pælingar og þankagang sem fimmtugri og farsælli konu dettur í hug hverju sinni... að minnsta kosti á meðan hún nennir að skrifa. Aukaatriði er hvort einhver nennir að lesa. Það er nefnilega svo gaman að setja sumt sem er í kollinum í ritmál og skoða það svo síðan með mátulegum skammti af húmor - ekki síst fyrir sjálfum sér. Ef þankagangur Túttunnar ratar í góðan jarðveg sálarlífs hennar sjálfrar þá er tilganginum náð.
Svo má alltaf snýta sér í sængurhornið á kvöldin, brosa út að eyrum og þakka fyrir hvern dag sem okkur mannfólki er gefinn í þessu Undralandi sem lífið er.