miðvikudagur, 17. desember 2008

Replace the Fear of the Unknown with Curiosity

Tútta er að loka ferðatöskunni sinni. Búin reyndar að loka ýmsu öðru líka.
Útrásar-fyrirtækinu sem hún hefur rekið hér síðan í sumar ásamt litla verðmætasjóðnum og byrjaði svo ósköp vel. En þegar hallar undan fæti og afkoman ekki eins og búist var við, er skynsamast að draga saman seglin. Og nú er hálf tómlegt um að litast á Vesturbrú. Engin lítil skjáta, engar skólabækur, enginn fyrirtækjarekstur.

En Tútta er bara sátt. Veit að hún getur alltaf tekið upp þráðinn aftur með Bimsu sinni í leit að nýjum ævintýrum. Og hún hugsar til baka, til þessa yndislega tíma sem mæðgurnar hafa átt hér saman við nám og störf. Átt góðar stundir... en líka erfiðar. En umfram allt, eignast ómetanlega lífsreynslu sem þær búa að alla ævi.
Því þær hafa verið forvitnar um lífið og tilveruna og ekki látið óttan við hið ókunnuga stöðva sig.

Þess vegna lokar Tútta ferðatöskunni sinni einnig nú og skellir í lás. Því hún óttast ekki hið ókunna sem býður hennar á næstunni. Ætlar á vit ævintýra... því hún er forvitin mannfræðinemi og finnst lífið svo ótrúlega skemmtilegt furðuverk!

Og hér með lýkur síðustu bloggfærslu Túttu.
Það hefur verið ánægjulegt að skrifa og láta í ljós tilfinningar sínar og hugsanir.
Tútta þakkar öllum þeim sem hafa fylgst með. Og Tútta þakkar einnig hlýhug og hvatningu sem hún hefur fengið til baka frá vinum sínum. Það hefur verið henni ómetanlegur stuðningur.

Bestu þakkir kæru vinir, glædelig júl og hils fra Danska!

Púnktur.
http://www.youtube.com/watch?v=c5IIXeR5OUI

laugardagur, 13. desember 2008

Rósin hennar mömmu sinnar!

Ég veit ekki hvort ég get þetta mamma. Þessa setningu sagði hún oft við mömmu sína fyrstu dagana hér í Danskalandinu. Nýr skóli, nýtt umhverfi, nýjir vinir. Svo margt nýtt og ókunnugt sem beið hennar.
Jú þú getur þetta alveg! sagði Túttumamma. Þú getur þetta vegna þess að þú ert dugleg og kjörkuð. Þú ert ótrúlega klár stelpa og allt sem klárar stelpur ætla sér, það geta þær.
Og litli engillinn hefur vaknað á hverjum morgni og tekist á við dagsins önn með þessi orð mömmu sinnar í farteskinu. Túttumamma hefur horft á eftir henni inn á nýjar skólalóðir, fyrst svolítið óörugga, hikandi... svo hélt hún áfram, alein, keik og kjörkuð. Svo ótrúlega dugleg!
Og eftir því sem tíminn leið sá Túttumamma hana eignast vinkonur og vini. Vera duglega í skólanum og koma brosandi heim með föndur og fínerí. Vera best í sundi í bekknum! Ná tökum á dönskunni og jafnvel þýða það sem Túttumamma ekki skildi! Sjá sjálfstraustið og kjarkinn aukast með hverjum deginum.

Hún hefur hjólað þvers og kruss um alla borg á litla hjólinu sínu. Sungið hástöfum svo Túttumamma viti af henni fyrir aftan sig í allri umferðinni. Hún upplifði sólríkt sumar á stuttbuxum og sandölum. Og haust með kulda og myrkri. Það hefur verið gaman en margt hefur líka verið skrítið og framandi.
Túttumamma hefur þurft að útskýra margt skringilegt fyrir henni, meðal annars hvers vegna sumar skólasystur hennar, vegna trúar sinnar, bera slæður um höfuðið. Hvers vegna þær fara hvorki í sund né leikfimi eins og hún þarf að gera. Og Túttumamma útskýrir líka hvers vegna henni er fylgt í og úr skóla á hverjum degi. Börn eru ekki ein á ferli hér eins og heima.
Og svo hefur henni þótt svo gaman að fá heimsóknir frá Íslandi. Og hún hefur grátið þegar hún hefur þurft að kveðja. Hún hefur glaðst yfir símtölum að heiman. Brunað eins og píla að símtólinu í hvert sinn sem síminn hefur hringt.
Hún hefur ferðast alein fram og tilbaka yfir Atlantshafið með bangsana sína í fanginu. Svo ótrúlega dugleg þessi litla rós.

Og nú er hún á heimleið. Enn og aftur með bangsana sína í kjöltunni. Inn í enn eitt ævintýrið.
Búin að kveðja alla vini sína hér... og snökkta soldið í hálsakotið mömmu sinnar.
Aftur soldið kvíðin og óörugg...en auðvitað dugleg og kjörkuð eins og sannri Túttudóttur sæmir.
Góða ferð elsku Bimsa mín og megi góðar vættir fylga þér alltaf. Sjáumst fljótt aftur!

http://www.youtube.com/watch?v=5GbGO0LPtck&feature=related

miðvikudagur, 10. desember 2008

Próflok og niðurpökkun

Sætar frænkur
Skautadrottningar

Tútta upplifir aaalgjööört sálarlegt flatlendi þessa dagana. Próf búin og Bimsubarnið á heimleið. Gvöh hvað þetta er eitthvað skrítin tilfinning... annasamir dagar að baki. Hálft ár að baki, viðburðarríkt, skemmtilegt, erfitt, óvænt, krefjandi, lærdómsríkt... jámm, held að Tútta og Bimsubarnið eigi eftir að lifa lengi á þessu skemmtilega ævintýr hér í Danska.

Tútta er mætt kl. 10 púnktlich s.l. mánudagsmorgun í hið göfuga menningarsetur Jónshús veð Oster Voldgade til próftöku. Andvökunótt með mörgum kló.... ferðum og svitaböðum að baki. Tútta í sínu venjulega prófskjálftakasti stynur upp að hún eigi að taka próf í Etnógrafíu hér í staðnum á vegum Háskóla Íslands og framvísar pappírum frá prófstjóra því til sönnunar.
Eh... Uhm... Smá misskilningur í gangi milli Háskóla Íslands og þessarar ágætu stofnunar er henni tjáð þegar hún hefur náð andanum eftir hjólaferðina niðrí bæ. Sko... prófið er á morgun, þriðjudag.
Eh... Um... Olræt huxar Tútta, nennir ekki að eyða dýrmætri orku í karp og svekkjelsi, hjólar aftur heim í 24 tíma viðbótar kvíðakast og lestur með tilheyrandi skjálfta og kló... ferðum.
En viti menn! Tútta vaknar pollróleg á þriðjudagsmorgun. Hva! Próf! Iss! Brunar aftur niðrí Jónshús með blýant, eyrnatappa, Fanta lemon og 70% súkkulaði í farteskinu og hviss bang! Rúllar prófinu upp með stæl. Nebblea að vera vel lesin er málið sko!

Og þar með er skotið í eina matarveislu um kvöldið. Íslandsbryggjukrúið, Gúrí, Jónas og fröken Ísabella koma hjólandi í rigningu á Vesturbrú til að samgleðjast og kyssa Bimsubaunina bless sem á laugardag fer heim til Íslands. Yndisleg stund með alveg frábæru fólki.

Þrír dagar þar til Bimsa fer heim, notum þá vel! segir Túttumamma sem er fegin próflokum og ætlar að gera sko allt, allt allt næstu daga! Pakka, vera súpermom, powerwoman og gvöð veit hvað.
Byrjum á gubbupest og niðurg.... á miðvikudagsmorgun. (Einmitt það sem þessi tveggja manna fjölskylda þurfti á að halda nebblea!) Iss, það konsept er afgreitt í hádeginu þann sama dag og seinnipartinn rúlla mæðgurnar sér á skautum ásamt Dagbjörtu vinkonu sem hefur verið svo yndisleg við Bimsubaun í vetur.
Heitt kakó og varme æbleskiver eftir skautaferðina. Mmm... Tútta er að huxa um að gefa sér eitt slíkt eplaskífu-brúkunarapparat í jólagjöf svo hægt sé að viðhalda danskri tradisjón á aðventu þegar heim er komið.

Og nú er að spýta í lófana. Pakka, kaupa jólagjafir, fara í heimsóknir, kveðja alla yndislegu vinina... því dvöl þessara mæðgna er að ljúka hér í Danska. Bimsa heldur jól heima á Íslandi, Tútta sem er ekki mikið jólabarn, ætlar í smá skreppitúr og kemur heim í janúar.
Þaðheldégnú!

föstudagur, 5. desember 2008

Að vera yfirlesin...

Perleværksted på Vesterbro

... er eitthvað sem Túttu finnst voða vont að vera. Og merkilegt nokk.... gerist í lok hvers misseris fyrir próf. Er að gerast einnig núna.
Symptomið lýsir sér svona: Tútta les og les... þambar kaffi, borðar ótæpilega af ruslfæði, sefur skrikkjótt og dreymir námsefnið sem er til prófs á hvurri nóttu. Vaknar í svitabaði og stresskasti til að koma afkvæminu í skólann.
Svo hefst púlið. Tappar í eyrun. Rótað í glósum og glærum. Blaðað og flett í skruddum. Lesa, lesa, kaffi, pissa, kaffi, lesa meira, pissa meira. Gvöh! Túttu gæti verið að yfirsjást eitthvað... eitthvað sem kennarinn er sérstaklega að fiska eftir.... gæti skipt sköpum! Kræst! Meira grams í glósum... meira kaffi! Hjelp!
Mamma ég er með kvef, held ég komist ekki í skólann í dag.
Eh! Uhm... dásamleg tímasetning!
Shuss krakki! Hold op!... Tútta fer í afneitun, skal skrifa bréf, færð að vera inni í frímínutum. Glætan að hafa þig heima... ÉG ER Í PRÓÓÓÓFLESTRI!
En mamma! Ég er LASIN!
Tútta hrekkur við og spýtist inn í raunveruleikann um leið og hún tekur eyrnatappana úr hausnum. Almáttugs barnið að eiga svona mömmu sem hlustar ekki einu sinni. Og Tútta sem stundum er sögð vera bad woman, but good mom faðmar þennan lasna engil sinn og lætur skruddur upp í hillu. Komið gott af lestri í bili, tökum þær aftur fram á sunnudaginn.... bara svona til að rifja upp fyrir mánudagsmorgun. Túttumamma og Bimsubaun kúra hjemme í dag.
Dagbjört vinkona kemur í heimsókn eftir skóla og saman sitja stöllurnar og perla og perla, skrúfa músík í botn og blaðra á dönskuskotinni íslensku um alla sætu strákana í skólanum. Æjj... svo notó að vera bara heima, hlusta á jólalög og chilla í góðum félagsskap.
Held samt að Túttan verði glöð á mánudag kl. sirka 14 dansk tid.
Jamm, held hún hlúnkist niðrí sófa með einn Túborg og blási feitt eftir þetta skrautlega misseri hér í Danska.

þriðjudagur, 2. desember 2008

Mikkel og Guldkortet...

... er jóladagatal sjónvarpsins hér í Danska í ár, udsent af TV2. Bimsa hvetur alla sem hafa aðgang að stöðinni heima á Fróni að kíkja á þáttinn sem er sendur út kl. 20 dansk tid, og endursýndur daginn eftir kl. 17.
Hrikalega fyndinn og skemmtilegur þáttur og Bimsubarnið alveg að tjúllast af hlátri. Meira að segja Túttumamma sem telst frekar húmorslaus brosir út í annað í miðjum próflestri.

Þátturinn er um strákinn Mikkel sem bjargar jólasvein úr háska. Í staðinn fær hann eina ósk. Og Mikkel óskar sér að geta keypt allt sem fyrir finnst í heiminum. (Sumsé týpískur nútímakrakki, firtur öllu skynbragði á raunveruleikann). Og Bimsubarnið og Túttumamma bíða spenntar eftir hverri útsendingu.

Það sem er líka svo skemmtilegt er að Bimsa og bekkurinn hennar vinna verkefni í skólanum daglega í tengslum við þáttinn. Bekkurinn á jóladagatalið, öll saman, sem staðsett er í skólastofunni.