þriðjudagur, 27. júlí 2010

Gamall maður á eintali við guð...

... hann styður sig við krossinn á leiðinu hennar, sumpart vegna þess að hann er örlítið valtur á fótum og sumpart vegna þess að hann heldur enþá í minninguna um hana, konuna sem var honum allt og kvaddi fyrir ári síðan.
Hann fékk nefnilega símtal fyrr í dag. "Sæll pabbi minn, eigum við ekki að fá okkur bíltúr upp í kirkjugarð í góða veðrinu? Í dag er nefnilega ár síðan mamma dó".
"Ert þetta þú gullið mitt? Já... er ár í dag?" spyr hann vegna þess að minnið og tímskynið er farið að daprast.
Eftir að konan hans kvaddi hefur hann nefnilega mestmegnis setið einn. Aleinn. Á vistheimili fyrir aldraða. Gluggar stundum í blöð og bækur. Skoðar líka oft blaðaúrklippu, minningargreinina um hana. Hann fær að vísu gott atlæti á vistheimilinu en stundum er hann einmanna því fáir koma til hans. Dagarnir eru því oft lengi að líða.
En nú fer hann í bíltúr. Það liggur vel á honum því hann fer ekki oft út. Þau keyra saman, hann á jakkafötum með bindi eins og alltaf því hann er flottur og glæsilegur maður. Hefur í raun ávallt verið fremstur meðal jafningja, virtur og dáður fyrir störf sín og atgervi á sinni löngu lífsleið. En nú er hann gamall maður. Orðinn hokinn í baki og mæddur af löngu lífi. Stundum málhaltur og gleyminn. Þegar þannig er komið er gott að eiga eintal við guð.
Og þar sem hann styður sig við krossinn og jafnvel strýkur hann eins og koll á litlu barni þakkar hann almættinu fyrir allt sem lífið hefur gefið honum. Góða konu og góð börn. Hann spjallar um sitthvað sem liggur honum á hjarta við þennan vin sinn. Þó mestmegnis þau hugðarefni sem snúa að fjölskyldunni hans, hamingju, væntingum og vonum.
"Ég er svo þakklátur fyrir ykkur systkinin" segir hann að lokum við dótturina sem var svo elskuleg að gefa sér tíma til að keyra hann upp í kirkjugarð. "Við fengum ykkur eins og sólargeisla í líf okkar því við gátum ekki átt börn". "Já pabbi minn... ég veit" segir hún því hún getur í raun ekki sagt neitt annað. Hún horfir bara á þennan gamla mann sem styður sig við krossinn á leiðinu. Pabba sinn sem nú er orðinn eins og barnið hennar.
Og hann heldur áfram að strjúka krossinn, fer um hann mjúkum höndum og spjallar við vin sinn guð, sem hefur alltaf verið til staðar í lífi hans. Vin sem hann þráir að komast til sjálfur áður en langt um líður. Því hann er þreyttur.
Vinur sem er til staðar þrátt fyrir að aðrir vinir eru farnir eða uppteknir.

laugardagur, 17. júlí 2010

Ætlarðu að reyta arfann með hugaraflinu?


... spyr nágrannakonan og góð vinkona Túttu.

Líklega ástæða að spyrja, því Túttan hefur haft við vinkonuna stóryrt plön alla vikuna um upprætingu þessa arfa sem vex í blómabeðinu og nú skyldi ráðast á með kjafti og klóm þessa helgi. Góðviðrið og sólin skulu svo hjálpa til við að gera þetta leiðindaverk að guðdómlegri athöfn.
En hugsanlega er einhver ástæða fyrir að nágrannakonan spyr því hún horfir með undrunaraugum á Túttuna sem liggur á sólbekk, ótrúlega slök og gónir á illgresið pínulítið annars hugar, hálfpartinn utan við sig og greinilega ekki í stuði fyrir verkerkefnið.

Hvað veldur? Af hverju er Túttan svona fjarlæg og dreymin á svip? Er hún búin að lesa of mikið af krimmum og rómönsum í sumarfríinu? Svolítið svona í öðrum veruleikaheimi? Í fríi frá skólabókum og hefur farið hamförum í afrþeyingarhillum bókasafnsins?
Eða er hún að taka þessu saklausa sumri á einhvern hátt of alvarlega?

Af hverju er hún bara kjur á sólbekknum og blimskakkar augunum á arfann sem vex og dafnar í beðinu án nokkurs áreitis frá skóflu, klóru og viðeigandi útbúnaðar? Og virðist einhvern veginn vera alveg sama?

Líklega er það vegna þess að einhver skrítin tilfinning er innan í Túttu þessa dagana. Einhver tilfinning sem hvorki orsakast af daglegu amstri né huglægum vangaveltum um fortíð, nútíð eða framtíð. Þessi tilfinning er sumsé alveg ný. Byrjaði einhvern tíma í vikunni sem leið, alveg óvart og án nokkurs fyrirvara. Góð tilfinning. Svolítið sæt og unaðsleg. Pínulítið spennandi í ofanálag. Eiginlega þannig formuð að Túttan bara gónir á arfann, heldur áfram að liggja á sólbekknum og jánkar nágrannakonunni.
Jú, jú, hún líklega reytir arfa-ófétið með hugarfluginu. Er nebblea upptekin við annað.